Ljósm. úr safni/ sá.

Verma enn botnsætið

Snæfellingar biðu lægri hlut gegn Birninum, þegar liðin mættust í 4. deild karla í knattspyrnu á laugardaginn. Leikið var í Stykkishólmi og það voru gestirnir sem skoruðu öll þrjú mörk leiksins.

Guðbjörn Alexander Sæmundsson braut ísinn fyrir Björninn á 16. mínútu leiksins og Pétur Ásbjörn Sæmundsson skoraði annað mark gestanna á 22. mínútu leiksins. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik og Björninn leiddi því 0-2 í hléinu. Það var síðan Ágúst Marel Gunnarsson sem innsiglaði þriggja marka sigur gestanna á 53. mínútu.

Snæfellingar verma enn botnsæti B riðils með eitt stig eftir sex leiki, rétt eins og Álafoss sem situr í sætinu fyrir ofan. Botnliðin tvö mætast í næstu umferð deildarinnar. Leikur Snæfells og Álafoss fer fram í Stykkishólmi í kvöld, miðvikudaginn 29. júlí.

Líkar þetta

Fleiri fréttir