Gonzalo Zamorano fagnar marki. Ljósm. úr safni/ af.

Sannfærandi sigur Víkings

Víkingur Ó. vann sannfærandi 3-0 sigur á Leikni F., í fyrsta heimaleik liðsins undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar, þegar liðin mættust á Ólafsvíkurvelli í gærkvöldi.

Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti og Harley Willard átti skot sem small í stönginni eftir aðeins tveggja mínútna leik. Víkingsmenn voru mun öflugri, sóttu stíft og sköpuðu sér nokkur ágætis marktækifæri. Þeir komust svo yfir á 33. mínútu, eftir hornspyrnu. Mikill uslu skapaðist í vítateignum, Ólafsíkingar áttu skot að marki sem Bergsteinn Magnússon í marki gestanna varði glæsilega í þverslána. Þaðan skoppaði boltinn út í teiginn þar sem Vignir Snær Stefánsson stökk á hann og kom honum yfir línuna.

Leikurinn datt aðeins niður eftir að fyrsta markið var skorað. Gonzalo Zamorano komst þó einn í gegn á lokamínútu fyrri hálfleiks eftir laglegan samleik við Billy Steadman, en Bergsteinn varði vel frá honum.

Ólafsvíkingar voru sterkari í upphafi síðari hálfleiks og bæði Billy og Harley fengu ágæt tækifæri til að bæta við marki eftir góðan samleik við Gonzalo. Það var síðan Gonzi sem kom Víkingi í 2-0 á 57. mínútu leiksins og fimm mínútum síðar skoraði Billy laglegt mark eftir sendingu frá Indriða Áka Þorlákssyni. Staðan orðin 3-0 og Ólafsvíkingar komnir í góða stöðu.

Sigur Víkings hefði getað orðið stærri. Harley smellti boltanum í stöngina skömmu eftir þriðja markið og hann komst síðan aftur í gott færi skömmu síða en skaut framhjá. Það var ekki fyrr en í blálokin að lifnaði yfir gestunum frá Fáskrúðsfirði. Þeir sóttu stíft en höfðu ekki erindi sem erfiði gegn vörn Ólafsvíkinga sem unnu sannfærandi 3-0 sigur.

Víkingur situr í 9. sæti deildarinnar með níu stig eftir átta leiki, stigi á eftir Aftureldingu en með tveggja stiga forskot á Leikni F. Næst leika Ólafsvíkingar þriðjudaginn 4. ágúst næstkomandi, þegar þeir mæta Grindvíkingum á Ólafsvíkurvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir