Ljósm. úr safni/ gbh.

Fóru svangir heim úr markaveislu

ÍA mátti sætta sig við tap gegn Breiðabliki þegar liðin mættust í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Leikið var á Kópavogsvelli. Óhætt er að segja að áhorfendur hafi fengið mikið fyrir peninginn, því leikurinn var mikil markaveisla þar sem átta mörk litu dagsins ljós. Fimm þeirra skoruðu Blikar, en Skagamenn þrjú.

Leikurinn byrjaði fjörlega og bæði lið fengu færi á fyrstu tíu mínútunum. Það var síðan eftir aðeins 11. mínútna leik að fyrsta markið var skorað. Alexander Helgi Sigurðsson kom Breiðabliki yfir þegar hann fylgdi eftir eigin skoti sem hafði hafnað í varnarmanni. Á 17. mínútu fór Gísli Eyjólfsson illa með vörn Skagamanna upp við endalínuna, sendi boltann svo út í teiginn á Kristinn Steindórsson sem skoraði með góðu skoti í fjærhornið.

Heimamenn voru þar með komnir í 2-0 og þeir voru mun sterkari það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Á 36. mínútu fékk Breiðablik hornspyrnu. Thomas Mikkelsen reis manna hæst í teignum og skoraði með góðum skalla í hornið fjær. Aðeins þremur mínútum síðar sendu Blikar langan bolta fram völlinn á Alexander Helga Sigurðsson sem var rétt fyrir utan vítateig Skagamanna. Hann sendi fastan bolta inn í teiginn á Kristinn Steindórsson sem skoraði sitt annað mark með skoti í stöngina og inn og Blikar komnir í 4-0.

En fjörið í fyrri hálfleik var ekki búið. Skömmu fyrir hléið fengu Skagamenn vítaspyrnu þegar Viktor Jónsson var rifinn niður í teignum. Tryggvi Hrafn Haraldsson fór á punktinn, skoraði af öryggi og minnkaði muninn í 4-1 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Síðari hálfleikur byrjaði með jafn miklum látum og sá fyrri endaði. Aðeins þremur mínútum eftir að liðin sneru út á völlinn að nýju skoraði Hlynur Sævar Jónsson annað mark ÍA í leiknum. Tryggvi tók hornspyrnu á fjærstöngina þar sem Hlynur náði að teygja sig í boltann og koma honum í netið.

Enn hélt fjörið áfram, því á 52. mínútu fengu heimamenn vítaspyrnu. Thomas Mikkelsen tók spyrnuna og skoraði af öryggi og kom Blikum í 5-2. En þannig var staðan ekki nema í mínútu eða svo. Anton Ari Einarsson, markvörður Blika, var þá æði kærulaus með boltann í markteignum áður en hann gerði sig líklegan til að sparka boltanum fram. Viktor Jónsson komst fyrir spyrnuna og af honum fór boltinn í netið. Staðan orðin 5-3 og enn tæpar 40 mínútur eftir af leiknum.

Breiðabliksliðið var öflugra það sem eftir lifði leiks, skapaði sér nokkur ákjósanleg marktækifæri og hefði getað bætt við mörkum. Skagamönnum gekk hins vegar verr að ógna marki heimamanna. Fleiri mörk voru ekki skoruð og leiknum lauk því með 5-3 sigri Blika.

Skagamenn sitja í 8. sæti deildarinnar með tíu stig eftir níu leiki. Þeir eru stigi á eftir FH en með tveggja stiga forskot á næstu lið fyrir neðan. Næsti leikur Skagamanna í deildinni er útileikur gegn Fjölni miðvikudaginn 5. ágúst. Í millitíðinni mæta þeir hins vegar Val í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Sá leikur fer fram á Hlíðarenda næstkomandi föstudagskvöld, 31. júlí.

Líkar þetta

Fleiri fréttir