Skagamenn þakka fyrir sig að leik loknum. Ljósm. Inga Dóra Halldórsdóttir.

Skagamenn komnir í toppbaráttuna

Meistaraflokkur ÍA í knattspyrnu karla átti ekki í vandræðum með nýliða Gróttu þegar liðin mættust í sjöttu umferð Íslandsmótsins á Seltjarnarnesi á sunnudaginn. Gróttamenn unnu sinn fyrsta sigur í síðustu umferð og komu því fullir sjálfstrausts til leiks. Skagamenn aftur á móti skildu jafnir við HK á heimavelli í síðustu umferð, en þeir félagar hafa verið á uppleið upp töfluna.

Það tók ÍA ekki langan tíma að komast yfir í leiknum því strax í fyrstu sókn skoruðu þeir félagar. Hallur Flosason átti sendingu í teig heimamanna sem rataði á Viktor Jónsson sem skallaði knöttinn í netið. Þeir gulklæddu héldu áfram að sækja og virtust ekki í neinum vandræðum að opna vörn Gróttu. Eftir vandræðagang í vörn heimamanna lenti boltann við tær Stefán Teits Þórðarsonar. Stefán fékk nægan tíma til að skila boltanum í netið og tvöfalda þannig forystu ÍA eftir stundarfjórðungsspil. Fimm mínútum síðar bætti Brynjar Snær Pálsson þriðja markinu við og fjórða markið kom svo frá Viktori Jónssyni. ÍA leiddi því með öruggu fjögurra marka forystu í leikhléi.

Í síðari hálfleik voru Skagamenn heldur rólegri í sínum sóknaraðgerðum, létu boltann ganga sín á milli án þess þó að sækja af einhverjum ákafa. Heimamenn náðu aldrei neinum almennilegum marktækifærum og sigldi ÍA því öruggum 4-0 sigri í höfn.

Með sigrinum er ÍA komið í toppbaráttuna, einungis einu stigi á eftir efstu mönnum í Breiðabliki sem eru með 11 stig. Valur fylgir svo fast á eftir í þriðja sæti með níu stig.

Næsti leikur þeirra gulklæddu verður gegn Víkingi R. á sunnudag kl. 19:15 á Víkingsvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir