Tekist á í sókninni. Ljósm. sas.

ÍA áfram í Mjólkurbikar kvenna

Kvennalið ÍA tryggði farseðil sinn í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins eftir dramatískan sigur gegn Kópavogsliðinu Augnabliki á laugardag á Akranesvelli. Fyrsta mark kom frá heimastúlkum eftir um hálftíma leik. Það var Erla Karitas Jóhannesdóttir sem kom þeim stöllum yfir á 27. mínútu og leiddu þær gulklæddu í leikhléi.

Í síðari hálfleik var allt í járnum og hart barist. Leikmenn Augnabliks sóttu hart að ÍA og uppskáru með marki þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Björk Bjarmadóttir sem kom inn á á 68. mínútu, jafnaði metin fyrir gestina.

Við tóku fjörugar lokamínútur. Einni mínútu fyrir venjulegan leiktíma fékk Jaclyn Ashley Poucel, leikmaður ÍA, rautt spjald og þurftu heimastúlkur að klára leikinn einum leikmanni færri. Það kom ekki að sök því á annarri mínútu uppbótartíma lét Eva María Jónsdóttir boltann syngja í netinu og tryggði hún þannig sigur Skagakvenna og farseðilinn í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins.

Búið er að draga í næstu umferð. ÍA mætir Breiðabliki í 8-liða úrslitum en Breiðablik spilar í úrvalsdeild kvenna. Leikurinn fer fram þriðjudaginn 11. ágúst kl. 18:00 á Akranesvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir