Mikil barátta í teignum í gærkvöldi. Ljósm. sas.

Jafntefli í fjörugum leik

Karlalið ÍA í knattspyrnu skildi að jöfnu við lið HK úr Kópavogi þegar liðin mættust í fjörugum leik í fimmtu umferð Pepsi Max deildar karla á Akranesvelli í gærkvöldi. Skagamenn komu inn í viðureignina fullir sjálfstrausts eftir sannfærandi útisigur gegn Valsmönnum í síðustu umferð á meðan HK-ingar gerðu jafntefli í miklum markaleik gegn Gróttu.

Eftir nokkrar álitlegar marktilraunir frá heimamönnum í byrjun leiks uppskáru þeir loks mark. Eftir um það bil hálftíma spilamennsku fékk ÍA aukaspyrnu sem Tryggvi Hrafn Haraldsson tók. Spyrnan rataði beint á hausinn á Óttar Bjarna Guðmundsson sem skallaði knöttinn í mark HK. Rétt undir lok fyrri hálfleiks tókst gestunum að jafna metin. Á 43. mínútu, þeirri miklu markamínútu, átti Valgeir Valgeirsson góð tilþrif með boltann, lék á varnarmenn ÍA, sendi knöttinn á Atla Arnason liðsfélaga sinn sem potaði knettinum áleiðis yfir línuna. 1-1 var staðan í leikhléi.

Á 65. mínútu komust Skagamenn yfir á nýjan leik. Aftur náðu þeir að skora út föstu leikatriði þegar aukaspyrna var tekin út á kant, þaðan á Stefán Teit sem lyfti boltanum inn fyrir á Óttar Bjarna sem skallaði fyrir á Tryggva Hrafn Haraldsson sem kórónaði sóknina með marki. Töluverður hiti færðist í leikana í kjölfarið. Dæmt var víti á þá gulklæddu á 78. mínútu. Þá fór Atli Arnarsson á punktinn fyrir sína menn sem setti knöttinn þéttingsfast niður í hornið og jafnaði þannig metin. Ekki komu fleiri mörk og jafntefli niðurstaðan.

Með eitt stig í safnið stendur ÍA í stað í 4. sæti deildarinnar með 7 stig. HK-ingar færa sig aftur á móti upp um eitt pláss og eru nú í 8. sæti með 5 stig eftir fimm umferðir.

Næst fara Skagamenn á Seltjarnarnesið og mæta þar Gróttu. Leikurinn fer fram á sunnudag kl. 17:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir