Gunnar kampakátur upp af Sandvík á Reykjanesi við brúna á milli Evrópu og Ameríku. Tæpir 60 km að baki – og ekki nema rúmir 100 eftir. Ljósm. Guðbjörg Jónsdóttir.

Gunnar Viðar varð fyrstur til að hlaupa 100 mílur á Íslandi

Gunnar Viðar Gunnarsson í Borgarnesi varð um helgina fyrstur allra til að ljúka viðurkenndu 100 mílna keppnishlaupi á Íslandi. Hlaupið var hluti af viðburðinum America to Europe Ultra, sem nú var haldinn í fyrsta sinn. Boðið var upp á nokkrar vegalengdir en Gunnar var sá eini sem lagði í 100 mílurnar. Hann hljóp af stað frá Vogum á Vatnsleysuströnd kl. 8 að morgni föstudagsins 3. júlí og lauk hlaupinu á sama stað fyrir hádegi daginn eftir. Vegalengdin mældist nákvæmlega 162,52 km og lokatími Gunnars var 26:37:28 klst.

Hlaupaleiðin í 100 mílna hlaupinu var fjölbreytt og lá um götur, stíga, þéttbýlisstaði, óbyggðir og úfin hraun. Í stuttu máli lá leiðin meðfram allri strönd Reykjanesskagans frá Vogum, í gegnum Njarðvík, Keflavík, Garðinn, Sandgerði og Hafnir, alla leið til Grindavíkur. Þaðan var svo haldið áfram meðfram Suðurstrandarveginum, austur og norður fyrir Kleifarvatn, suður með vatninu að vestanverðu, framhjá Keili og aftur sem leið lá í Vogana.

Aðstandendur og hlaupafélagar Gunnars fylgdust spenntir með honum í gegnum gervihnattasendi sem hann hafði meðferðis og sendi boð á 20 mínútna fresti. Á Facebooksíðu Hlaupahópsins Flandra má m.a. sjá að Gunnar var staddur í Grindavík kl. 19 á föstudagskvöld og var þá búinn með um 85 km. Kl. 22 um kvöldið var hann búinn með u.þ.b. 100 km og var þá staddur miðja vegu á milli Grindavíkur og Krýsuvíkur, beint norður af Selatöngum. Kl. 7 á laugardagsmorgun var hann svo staddur alllangt vestan við Kleifarvatn, nánar tiltekið norður af Djúpavatni skammt fyrir sunnan Grænudyngju og Trölladyngju. Þá voru um 140 km að baki. Gunnar kom svo í mark í Vogunum nokkru fyrir kl. 11 um morguninn og varð þar með, sem fyrr segir, fyrstur allra til að ljúka 100 mílna hlaupi á Íslandi.

Gunnar er rúmlega fimmtugur húsasmiður sem byrjaði að hlaupa árið 2012, kominn vel yfir fertugt. Á þessum tiltölulega stutta hlaupaferli hefur hann m.a. hlaupið tólf maraþon og Laugaveginn þrisvar sinnum, auk 90 km ofurmaraþons í Svíþjóð þar sem fylgt var sömu leið og í hinni margfrægu Vasagöngu. Á síðasta ári fékk hann inngöngu í félag 100 km hlaupara á Íslandi eftir að hafa lokið 100 km hlaupinu Kielder Ultra í Bretlandi.

Sjá fleiri myndir í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir