Hluti af verðlaunahöfum Meistaramóts Golfklúbbs Borgarness árið 2020.

Veðurblíða á Meistaramóti GB

Meistaramót Golfklúbbs Borgarness fór fram á Hamarsvelli í Borgarnesi dagana 30. júní til 3. júlí. Mótið hófst á þriðjudegi og spiluðu kylfingar 18 holur, fjóra daga í röð. Mótið er höggleikur að undanskildum Opnum flokki, sem spilaði með punkta-fyrirkomulagi, en þessi flokkur er settur á laggirnar til að hvetja nýja kylfinga í sportinu til keppni. Veðrið lék við keppendur alla fjóra dagana. Það endaði á föstudegi með tilheyrandi lokahófi og verðlaunaafhendingu á Hótel Hamri.

Klúbbmeistari í meistaraflokki karla varð Albert Garðar Þráinsson sem spilaði á 313 höggum samtals. Í öðru sæti var Rafn Stefán Rafnsson með 322 högg og í þriðja sæti Anton Elí Einarsson á 324 höggum. Efsti flokkur GB kvenna var 1. flokkur þar sem keppendur spila af rauðum teigum. Í fyrsta sæti varð Hansína Þorkelsdóttir sem spilaði á 352 höggum. Næst á eftir kom Júlíana Jónsdóttir á 378 höggum og loks var Gunnhildur Lind Hansdóttir í þriðja sæti á 393 höggum.

1.-2. flokkur karla og Opinn flokkur

Í fyrsta flokki karla sigraði Birgir Hákonarson á 340 höggum. Á eftir honum kom Emil Þór Jónsson með 352 högg og í þriðja sæti var Einar Þór Skarphéðinsson á 359 höggum. Í 2. flokki karla var Pétur Þórðarson efstur manna með 409 högg. Í öðru sæti var Þorvaldur Hjaltason með 412 högg og rétt á eftir, í þriðja sæti, var Einar Pálsson með 414 högg.

Að auki var keppni í opnum flokki sem er flokkur fyrir nýja kylfinga. Spilaðir voru tveir hringir með punkta fyrirkomulagi. Þar sigraði Kristjana Jónsdóttir, í öðru sæti var Guðbjörg Ásmundsdóttir og í þriðja sæti Guðveig Lind Eyglóardóttir.

Öldungaflokkar

Í flokki karla 50-64 ára og eldri var Jón Georg Ragnarsson bestur á 346 höggum. Ómar Örn Ragnarsson var annar með 354 högg og Ingvi Árnason var þriðji með 368 högg samtals. Í flokki karla 65 ára og eldri var Bergsveinn Símonarson hlutskarpastur. Hann sigraði með 261 höggi. Í öðru sæti var Lárus B. Sigurbergsson með 272 högg og í því þriðja var Jón J. Haraldsson á 302 höggum. Í kvennaflokki 65 ára og eldri var Ásta Sigríður Eyjólfsdóttir best á 320 höggum. Guðrún Sverrisdóttir var í öðru sæti með 324 högg og í þriðja var Þóra Ingunn Björgvinsdóttir. Þess má geta að 65 ára og eldri flokkarnir spiluðu þrjá keppnisdaga í stað fjögurra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir