Kraftur í sókninni. Ljósm. sas.

Sannfærandi fyrsti sigur Skagakvenna

Kvennalið ÍA í knattspyrnu átti fantagóðan leik þegar liðið sigraði Völsung í fjórðu umferð 1. deildar kvenna á Akranesvelli í gærkvöldi. Fyrir umferðina voru Skagakonur með þrjú jafntefli að baki og efalaust hungraðar í sigur og stigin þrjú. Völsungur aftur á móti hafði átt erfitt uppdráttar í mótinu og hafði liðið tapað öllum sínum viðureignum. Ekki varð nein breyting á því.

Lið ÍA kom ákveðið til leiks og eftir einungis fjögurra mínútna spil kom fyrsta markið. Þar var á ferðinni Unnur Ýr Haraldsdóttir. Liðið tvöfaldaði svo forystuna hálftíma síðar og Erla Karítas Jóhannesdóttir bætti við þriðja markinu fyrir leikhléið.

Í síðari hálfleik róuðust leikar. Heimastúlkur bættu við einu marki til viðbótar þegar Fríða Halldórsdóttir skoraði á 70. mínútu. Ekki urðu mörkin fleiri og fyrsti sigur ÍA í höfn.

Með brakandi fersk þrjú stig í farteskinu lyftir ÍA sér upp um eitt sæti í deildinni og eru þær stöllur nú með sex stig í fimmta sæti. Völsungar stendur í stað, stigalaus í botnsætinu.

Næsti leikur Skagakvenna er í Mjólkurbikarnum. Þar keppa þær í 16-liða úrslitum gegn Kópavogsliðinu Augnabliki. Leikurinn fer fram á Akranesvelli á laugardag kl. 16:15. Næsti leikur í deildinni aftur á móti verður suður með sjó gegn Keflavík fimmtudaginn 16. júlí.

Líkar þetta

Fleiri fréttir