Skagakonur bera saman bækur sínar. Ljósm. úr safni/gbh.

Þriðja jafnteflið í röð hjá Skagakonum

Kvennalið ÍA í fótbolta gerði jafntefli gegn Hafnarfjarðarliðinu Haukum þegar liðin áttust við í 3. umferð 1. deildar kvenna á Ásvöllum í gærkvöldi. Leikurinn var fjörugur og skemmtilegur. Skagakonur komu beittar til leiks og gáfu tóninn strax á 6. mínútu. ÍA fékk hornspyrnu sem Haukastúlkum mistókst að hreinsa frá með þeim afleiðingum að knötturinn fór beint í leikmann ÍA. Skagastúlkur náðu að nýta sér tækifærið þannig að Jaclyn Ashley Poucel átti góða sendingu inn í teig á Hrafnhildi Arín Sigfúsdóttur sem var í engum vandræðum með að stýra boltanum í netið. 1-0 fyrir ÍA.

Haukastúlkur létu mark gestanna ekki slá sig út af laginu og sóttu hart að þeim gulklæddu. Ekki leið á löngu þar til þær jöfnuðu metin. Á 23. mínútu átti Sunna Líf Þorbjörnsdóttir fantagóða fyrirgjöf á Vienna Behnke sem skallaði boltann í netið. 1-1 var staðan þegar gengið var til hálfleiks.

Bæði lið komu spræk inn í seinni hlutann. En það voru Haukar sem uppskáru mark á 64. mínútu. Eftir gott samspil Hauka átti Vienna Behhnke góða sendingu á Kristínu Fjólu Sigþórsdóttur sem kom boltanum í netið. Töluvert meira fjör færðist í leikinn þegar líða tók á hann og fóru þær gulklæddu að pressa Hauka upp völlinn og sækja meira. Þær náðu svo að jafna á 84. mínútu. Þar var á ferðinni Erla Karítas Jóhannesdóttir fyrir Skagakonur og jafnaði metin, 2-2, áður en leiktíminn var úti.

Liðin fá því sitthvort stigið í vasann að lokinni 3. umferð. ÍA hefur enn ekki náð að sigra leik og er með þrjú jafntefli á bakinu og þrjú stig í 6. sæti deildarinnar. Haukar aftur á móti eru í 2. sæti með fimm stig.

Næsti leikur ÍA er á Akranesi gegn Völsungum næstkomandi þriðjudag. Hefst sá leikur kl. 18:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir