Skagamenn áfram í Mjólkurbikarnum

Mikill spennuleikur átti sér stað í 32-liða úrslitum Mjólkurbikars karla þegar ÍA og Kórdrengir mættust í gærkvöldi. Leikurinn var spilaður í Safamýrinni í Reykjavík.

Allt stefndi í skyldusigur Skagamanna en þeir spila í úrvalsdeild karla á meðan Kórdrengir eru nýliðar í 2. deild. Það kom því efalaust sumum á óvart að fyrsta mark leiksins kom frá Kórdrengjum strax á níundu mínútu. Daníel Gylfason átti þá stórfína sendingu á liðsfélaga sinn Magnús Þóri Matthíasson sem lyfti boltanum snyrtilega yfir Árna Snæ í marki Skagamanna. Kórdrengir héldu dampi út hálfleikinn og reyndust Skagamönnum erfiðir sem færðu boltann vel á milli sín en án þess þó að ógna marki heimamanna. 1-0 var því staðan í hálfleik.

Síðari hálfleikur fór hægt af stað hjá báðum liðum. Á 69. mínútu fékk ÍA hornspyrnu sem þeir gulklæddu nýttu sér til fulls. Þá átti Tryggvi Hrafn Haraldsson góða fyrirgjöf á Viktor sem skallaði boltann örugglega í netið og jafnaði þannig metin.

Mikið fjör færðist í leikinn undir lokin. Kórdrengir komust aftur yfir á 81. mínútu eftir skallamark frá Einari Orra Einarssyni. Skagamenn voru ekki lengi að svara og jöfnuðu á nýjan leik á 85. mínútu þegar Stefán Teitur Þórðarson átti góða fyrirgjöf á Hlyn Sævar Jónsson sem skallaði knöttinn framhjá markverði heimamanna. Ekki réðust úrslit í venjulegum leiktíma og uppbótartíma, svo blásið var til framlengingar. Þar hafði ÍA betur og reyndist Stefán Teitur Þórðarson bjargvættur Skagamanna þegar hann kom sínum mönnum yfir í fyrsta skipti á 110. mínútu eftir gott samspil þeirra gulklæddu. Ekki reyndist nægur tími fyrir Kórdrengi að jafna og Skagamenn því komnir áfram í 16-liða úrslit í Mjólkurbikarnum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Eygló Lind 70 ára

Hinn síungi Borgnesingur, Eygló Lind Egilsdóttir, fagnaði 70 árunum síðastliðinn laugardag. Sló hún til heljarinnar veislu í tilefni dagsins. Haldið... Lesa meira