Sanja Orozovic gengur til liðs við Skallagrím

Skallagrímskonum hefur borist öflugur liðsstyrkur fyrir næsta keppnistímabil í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik, því framherjinn Sanja Orozovic hefur gengið til liðs við lið Borgnesinga.

Sanja lék með KR á síðasta tímabili þar sem hún skoraði 16,6 stig og tók 8,8 fráköst að meðaltali í leik. Þar áður lék hún með Breiðabliki í Domino‘s deildinni, þar sem hún skilaði að meðaltali 20,6 stigum í leik. Áður en Sanja kom til Íslands lék hún með félagsliðum í Serbíu, Slóveníu og Ungverjalandi. Sanja er 30 að aldri og hefur bæði ungverskt og serbískt ríkisfang. „Ég mun gera allt mitt til að standa undir því trausti sem mér er sýnt, vinna leiki og ná markmiðum næsta vetrar. Ég hlakka til að koma í Skallagrím,“ segir Sanja.

Guðrún Ósk Ámundadóttir, þjálfari Skallagríms, kveðst afar ánægð að fá hana til liðs við Skallagrím. „Ég hef lagt áherslu á að vinna skipulega að því að undirbúa næsta tímabil og það að fá Sanju til okkar er liður í þeim undirbúningi. Hún á eftir að hjálpa okkur mikið enda mjög öflugur leikmaður sem þekkir deildina vel eftir að hafa spilað hér á landi síðustu tvö ár. Ég er mjög ánægð og hlakka til að fá hana í Borgarnes,“ segir Guðrún.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stangveiðar með drónum

Þegar blaðamaður Skessuhorns renndi niður Facebook í morgun rakst hann á athyglisverða auglýsingu. Þar auglýsti Suður-Afríska fyrirtækið Gannet búnað fyrir... Lesa meira