Hópurinn sem var viðstaddur undirritun samningsins. Ljósm. kgk.

Rafeldsneyti verður framleitt á Grundartanga

Nú í hádeginu var undirritaður samstarfssamningur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Þróunarfélags Grundartanga um þróun og framleiðslu á rafeldsneyti. Það voru Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Ólafur Adolfsson, stjórnarformaður Þróunarfélags Grundartanga, sem undirrituðu samninginn. Hann felur í sér 50 milljóna króna styrk ríkisins við verkefnið sem unnið verður undir stjórn þróunarfélagsins.

Verkefnið gengur út á að fanga kolefni frá útblæstri iðnfyrirtækja á Grundartanga, notkun á glatvarma og nýtingu endurnýjanlegrar umframorku í raforkukerfinu. Um er að ræða rannsóknar- og þróunarverkefni sem byggir á nýnæmi varðandi notkun á endurnýjanlegri raforku og varma til að framleið tilbúið eldsneyti úr vetni og koldíoxíð. Bjarni Már Júlíusson kemur til með að leiða verkefnið, að því er fram kom í máli Ólafs Adolfssonar við undirritun samningsins.

Markmiðið verkefnisins er að koma upp starfsemi sem dregur verulega úr kolefnisspori Íslands með því að framleiða kolefnishlutlaust rafeldsneyti sem nýta má til að knýja hefðbundna brunahreyfla samgöngutækja, án breytinga. Eldsneytið kæmi þannig í stað jarðefnaeldsneytis. Núverandi innviðir við geymslu, dreifingu og afgreiðslu eldsneytis myndu nýtast og nýtt rafefnaeldsneyti falla vel að gildandi regluverki og starfsleyfum. Þannig þurfi ekki að ráðast í miklar innviðafjárfestingar samhliða verkefninu. Verkefnið er liður í því að gera Ísland að kolefnishlutlausu samfélagi, bæta orkunýtni, nýta umframorku í raforkukerfinu, minnka losun gróðurhúsalofttegunda, auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa, efla orkuskipti, stuðla að grænni nýsköpun og efla rannsóknar- og þróunarstarf. Verkefnið snýr jafnframt að þróun nýrrar tækni með möguleika að flytja þá tækni út til annarra landa.

Staðsetning verkefnisins á Grundartanga kemur til af þeim sökum að þar er greiður aðgangur að þeim efnisstraumum sem verkefnið þarfnast; koldíoxíð og glatvarmi frá iðnaðarstarfsemi á svæðinu, aðgengi að endurnýjanlegri umframraforku auk góðrar hafnaraðstöðu. Vonir standa til að verkefnið styðji við áframhaldandi uppbyggingarskeið á Grundartanga sem grundvallað verði á nýsköpun, umhverfisvænum lausnum, verðmætasköpun og klasasamstarfi fyrirtækja, stofnana og opinberra aðila.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Bayeux og Borgarnes

Það var góð tilfinning að koma í Landnámssetur Íslands síðastliðinn fimmtudag og finna þar aftur fullt hús af menningarþyrstum leikhúsgestum.... Lesa meira