Johannes Simonsen. Ljósm. mm.

„Framtíð smábátaútgerðar byggir á þremur megin stoðum“

Johannes Simonsen er hálfsextugur Færeyingur sem í áratugi hefur verið búsettur á Akranesi. Hann er fæddur í Þórshöfn í Færeyjum 1965 og ólst þar upp. Johannes segir að uppeldið hafi einkennst af frjálsræði og sterkri tengingu við náttúru eyjanna, ekki ósvipað og hjá strákum á hans aldri sem á sama tíma voru að alast upp í sjávarútvegsbænum Akranesi. „Við krakkarnir vorum að leika okkur í fjörunni og á bryggjunni og svo var laumast í fuglabjörgin. Í rauninni vorum við að læra að verða sjálfstæðir, þetta frjálsræði mótaði okkur og efldi frumkvæði einsaklingsins, eitthvað sem í mínum huga er nauðsynlegt öllum sem vilja spjara sig í lífinu. Nú þegar ég hætti launavinnu hjá öðrum atvinnurekanda var fyrsta vers hjá mér að kaupa stærri trillu og hefja útgerð. Það var alltaf draumur minn, allt frá því ég var polli,“ segir hann í upphafi samtals við blaðamann.

Strax og tognaði úr stráknum úti í Færeyjum var Johannes farinn að vinna fyrir sér. Byrjaði ungur á sjó, eins og raunin er með marga Færeyinga, en kláraði menntaskólanám í Þórshöfn. Eftir það lá leiðin hingað til Íslands þar sem Johannes kynntist verðandi eiginkonu sinni Þórdísi Skúladóttur frá Akranesi. Þau eiga þrjú börn en Þórdís átti einn son fyrir. Eftir flutning á Akranes vann Johannes fyrst við smíðar með tengdaföður sínum og mági. Eftir það lá leiðin aftur á sjóinn, fyrst á togurum frá Akranesi en síðan á frystitogara frá Skagaströnd og þar bjó fjölskyldan um tíma.

Þegar Johannes var kominn yfir þrítugt söðlaði hann svo algjörlega um. Hélt í verkfræðinám til Danmerkur. Eftir fjögurra ára nám fékk hann vinnu hjá Skaganum sem þá var hratt að vaxa upp sem lausnamiðað framleiðslufyrirtæki á fiskvinnslutækjum. Reynslan Johannesar af sjónum og verkfræðinámið nýttust honum og ekki síður Skaganum vel við þróun hátækni fiskvinnslubúnaðar. Allir þekkja ævintýralegan vöxt og velgengni fyrirtækisins. Hjá Skaganum 3X starfaði Johannes samfleytt fram til 2019. „Þegar ég missti vinnuna stóð ég á tímamótum. Nærtækast var að sækja aftur á sjóinn, til þess lífs sem ég þekkti kannski einna best til og líkar auk þess best við. Ég hafði alla tíð haft gaman að fiskveiðum, átti opinn bát hér á Akranesi og hef haft unun af því að róa til fiskjar, nú eða stunda silungsveiðar upp til landsins. Nú hef ég ásamt Marinó Frey syni mínum keypt stærri bát, Guðmund Þór AK-99, og gerum við út ýmist héðan frá Akranesi eða frá öðrum höfnum á suðvesturhorninu þar sem besta fiskinn er að fá hverju sinni.“ Johannes er formaður Smábátafélagsins Sæljóns og brennur fyrir að útgerð smábáta við Íslandsstrendur geti eflst og dafnað.

Í Sjómannadagsblaði Skessuhorsn er rætt við Johannes um stöðu smábátaútgerðar, hugsanlega kvótasetningu í grásleppu og framtíð fiskveiða á smærri bátum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira