Maggi Emma tók á móti blaðamanni í beitningarskúrnum. Ljósm. kgk.

„Ég er svona trillukarl“

– segir Maggi Emma í Ólafsvík

 

„Ég byrjaði ellefu ára á sjónum. Pabbi og vinur hans keyptu trillu, en pabbi var svo sjóveikur að hann gat eiginlega ekkert unnið. Þannig að ég sagði við hann; „pabbi minn, ég skal bara fara út á sjó fyrir þig.“ Sem ég gerði, sendi bara kallinn í land og fór út á sjó,“ segir Magnús Guðni Emanúelsson léttur í bragði í samtali við Skessuhorn. Frá þessum degi hefur Magnús, jafnan kallaður Maggi Emma, sótt fisk í fang Njarðar, nær óslitið í tæpa fimm áratugi. „Ég er búinn að vinna í tvo mánuði í landi af þessum 48 árum sem eru liðin frá því ég byrjaði á sjónum. Ég hef aldrei getað unnið eftir klukku. Það er frelsi sem fylgir sjómennskunni. Maður ræður sér sjálfur, þarf ekkert að spá í tímanum og fær bara að vinna í friði,“ segir hann.

Það varð enda úr að um leið og grunnskólagöngunni lauk lá leiðin á sjóinn og engu logið þegar orðasambandið „um leið“ er notað. „Þegar ég kláraði 10. bekkinn og var að labba heim úr skólanum kom maður að máli við mig og spurði hvort ég vildi ekki fara á sjóinn. „Jú,“ sagði ég og spurði hvenær ég ætti að mæta. „Bara núna klukkan sex,“ sagði hann. „Já, og þú verður kokkur,“ bætti hann við. „Jaaá…“ sagði ég hikandi. En hann réði mig sem kokk á Skálavíkina þá og þegar, þar sem ég stóð úti á götu með skólatöskuna á bakinu. Ég fór úti á sjó og kom ekki heim í þrjá eða fjóra mánuði. Ég kunni ekki einu sinni að sjóða ýsu,“ segir hann og hlær við. „Mamma skrifaði á blöð fyrir mig hvernig ég ætti að baka og elda hitt og þetta. Ég tók miðana með mér fyrstu skiptin á sjónum,“ segir hann.  Og gekk það alveg upp? „Já, já, ég hef ekki drepið neinn ennþá,“ segir hann léttur í bragði.

Maggi Emma er til viðtals í Sjómannadagsblaði Skessuhorns sem fylgir blaðinu þessa vikuna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir