Frá sjómannadeginum í Grundarfirði í fyrra. Ljósm. úr safni/ tfk.

Hátíðarhöld á Vesturlandi á sjómannadaginn

Venju samkvæmt er sjómannadagurinn fyrsta sunnudag júnímánaðar, sem að þessu sinni ber upp á 7. júní. Víðast hvar í sjávarbyggðum hefur verið hefð að halda upp á daginn með pompi og prakt. Fyrir sakir þeirra fordæmalausu tíma sem við lifum nú er hins vegar fyrirséð að hátíðarhöld í tilefni sjómannadags verði með öðrum hætti en verið hefur.

Grundarfjörður

Í Grundarfirði fer sjómannadagurinn fram með nokkuð hefðbundnu sniði. Verið er að fínpússa dagskrána en búast má við krakkasprelli í vélsmiðjunni, keppni verður á bryggjunni og leikhópurinn Lotta mun stíga á svið. Nánari upplýsingar má finna á Facebook síðunni, Sjómannadagurinn í Grundarfirði.

Snæfellsbær

Í Snæfellsbæ verða hátíðarhöld með einföldu sniði í ár. Engir viðburðir fara fram niður við höfn í Ólafsvík eins og hefð hefur verið fyrir síðustu ár. Þess í stað verður eingöngu stutt athöfn á sjómannadaginn í Sjómannagarðinum kl. 13:30. Þar verður blómsveigur lagður að styttunni til minningar um látna sjómenn. Sigurður Páll Jónsson alþingismaður heldur ræðu í tilefni dagsins ásamt því að sjómenn verða heiðraðir fyrir störf sín. Á milli atriða munu krakkar leika sjómannalög undir stjórn Evgeny Makeev. Að dagskrá lokinni verður messað í Ólafsvíkurkirkju þar sem sjómenn lesa ritningarorð.

Stykkishólmur

Í Stykkishólmi hefjast hátíðarhöldin á laugardagskvöldinu með sjómannalagapartíi í miðbænum kl. 21:00. Dagskráin í ár verður í rólegri kantinum. Kl. 10:30 á sjómannadaginn verður lagður blómsveigur að minnismerki sjómanna í kirkjugarðinum. Í framhaldi hefst sjómannamessa kl. 11 þar sem meðal annars sjómaður verður heiðraður. Að lokum verður lagður blómsveigur að minnismerki sjómanna við Stykkishólmshöfn kl. 14 og nokkur sjómannalög spiluð. Frekari upplýsingar má finna á viðburðardagatali Stykkishólms og á heimasíðu bæjarins.

Akranes

Á sjómannadaginn kl. 10 fer fram minningarstund við minnismerki um týnda sjómenn í kirkjugarðinum á Akranesi. Í framhaldi að því verður blómsveigur lagður að minnismerki sjómanna á Akratorgi. Hátíðargestir eru hvattir til að koma við hjá Akraneshöfn og líta augum þá fiska sem verða þar til sýnis. Siglingafélagið Sigurfari mun setja sína báta á flot kl. 11 og hvetur aðra bátaeigendur til að gera slíkt hið sama. Að auki hvetja skipuleggjendur íbúa Akraness til að eiga góða stund saman á sjómannadaginn og deila myndum á Instagram sem tengjast sjónum með einhverjum hætti og nota millumerkin, #sjóak2020 og #visitakranes. Nokkrir myndaeigendur verða síðan dregnir úr pottinum af handahófi og fá vinning.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira