Jónas Sigurðsson skipstjóri. Ljósm. kgk.

„Ekki unnið launaða vinnu í landi síðan 1961“

– segir Jónas Sigurðsson, skipstjóri í Stykkishólmi

Jónas Sigurðsson, fyrrverandi skipstjóri, er fæddur á því herrans ári 1944, á Kóngsbakka í Helgafellssveit en fluttist tveggja ára gamall í Stykkishólm. Hann var lengi til sjós og fer enn túr og túr í afleysingum þegar kallið kemur. Skessuhorn hitti Jónas að máli á heimili hans í Hólminum fyrir skemmstu og ræddi við hann um sjóferilinn.

 

Frábær tími á Runólfi

„Ég hef ekki unnið launaða vinnu í landi síðan 1961, þá byrjaði ég á sjó fyrir alvöru,“ segir Jónas í samtali við Skessuhorn. Fyrst steig hann ölduna og fékk greitt fyrir á bátnum Víði, sem leigður var á vetrarvertíðina í Stykkishólmi þetta sama ár. Sumarið eftir fór Jónas á snurvoð á Brimnesinu, en um haustið lá leiðin út í Grundarfjörð. „Þar var ég í tvö ár á Runólfi. Það var alveg frábært, mjög skemmtilegur tími. Við rérum á vetrarvertíðinni og svo var síld fyrir norðan á sumrin, já og haustsíld hér út af Jökli og á Faxaflóanum,“ segir hann. „Það var mikill fiskur og alveg frábært fólk þarna. Fyrra sumarið var elsti hásetinn 19 ára gamall,“ segir Jónas og bætir því við að það hafi verið líf og fjör á þessum árum. „Ég hefði ekki viljað missa af þessum árum sem ég var hjá Guðmundi Runólfssyni. Þarna var maður líklega á skemmtilegasta aldrinum, 17 til 18 ára gamall og karlinn hress og skemmtilegur. Á síldinni lönduðum við oft á Siglufirði og þar var mikið mannlíf á þeim tíma, ball á hverju einasta kvöldi á Hótel Höfn. Ungir menn reyndu auðvitað að skemmta sér eins mikið og hægt var,“ segir Jónas og brosir.

„En það var ekki sjálfgefið að við gætum það. Á síldinni vorum við oft að landa langt fram á kvöld og þá alla jafnan búnir að missa af þeirri nótt. En þá sagði karlinn stundum við okkur; „jæja strákar, nú drífið þið ykkur á ball, við förum bara út klukkan fjögur. Og þið verðið að ná í stelpu, annars fáum við enga síld“,“ segir Jónas og brosir við endurminninguna. „Og það er svo merkilegt að það voru alltaf allir komnir um borð. Ég held að menn hafi ósjálfrátt passað upp á hvorn annan, að láta það aldrei gerast annað en að mæta á þeim tíma sem karlinn sagði til um, því þá yrði þetta náttúrulega ekki gert aftur,“ segir hann. „Hann var alveg frábær karl hann Gvendur,“ bætir Jónas við.

Rætt er við Jónas í Sjómannadagsblaði Skessuhorns.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira