Gleði og ánægja einkenndi sandkastalakeppni krakkanna í Brekkubæjarskóla. Ljósm. kgk.

Byggð rís á Langasandi – MYNDIR

Framkvæmdir stóðu sem hæst þegar Skessuhorn kom að Langasandi nú í morgun. Jarðvinnu var lokið og mjög víða langt komið að steypa útveggi þeirra fjölmörgu sandkastala sem reistir voru á sandinum þennan morguninn. Verktakar voru nemendur í 1.-6. bekk Brekkubæjarskóla, en vordagur er í skólanum í dag. Var hann nýttur á Langasandi, þar sem blásið hafði verið til sandkastalakeppni.

Krakkarnir gengu hreint til verks og unnu í hópum, þar sem nemendur í 1. og 6. bekk unnu saman að gerð kastalanna, 2. og 5. bekkur og svo 3. og 4. bekkur. Með fumlausum vinnubrögðum spratt upp mikil og þétt sandkastalabyggð á örskömmum tíma. Aðeins var lokafrágangur á lóðum og síkjum eftir þegar klukkan sló í matartíma.  Eftir létta hressingu verða kastalarnir dæmdir eftir hádegi og veittar viðurkenningar fyrir bestu kastalana í hinum ýmsu flokkum sandkastalakeppninnar. Einn ungur piltur sem kom að máli við blaðamann kvaðst þannig hafa sigrað keppnina um konunglegasta kastalann í fyrra og var staðráðinn í því að verja titilinn í ár.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir