Stigamótaröð GSÍ hefst á Garðavelli um helgina – bestu kylfingar landsins væntanlegir

Fyrsta mótið á stigamótaröð Golfsambands Íslands þetta sumarið verður leikið á Garðavelli á Akranesi dagana 22.-24. maí næstkomandi. Keppt verður í höggleik flokki karla og kvenna, 18 holur leiknar hvern dag en niðurskurður eftir annan hring. Það er Golfklúbburinn Leynir sem er mótshaldari. Rakel Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri klúbbsins, á von á sterku móti um helgina. „Allir sterkustu íslensku kylfingarnir eru heima á Íslandi vegna faraldursins og ætla að taka þátt um helgina,“ segir Rakel í samtali við Skessuhorn, en Covid-19 faraldurinn hefur auðvitað meiri áhrif á mótshald en það. Golfhreyfingin hefur sett reglur um golfiðkun vegna hans sem miða að því að fækka öllum sameiginlegum snertiflötum. Þannig er bannað að taka flaggstangirnar upp úr holunum, engar hrífur eru í glompum og kúluhreinsar hafa verið fjarlægðir. „Áhorfendur mega ekki ganga með hollunum sem tekur smá sjarma úr þessu en við erum svo heppin að ÍATV ætlar að taka þátt í þessu með okkur og reyna að streyma frá mótinu. Einnig verður skorið fært inn „live“ og hægt að fylgjast með öllum keppendum á golf.is,“ segir Rakel.

B59 Hotel í Borgarnesi er aðalstyrktaraðili mótsins. Rakel segir ánægju með það samstarf og segir að það verði ef til vill meira á komandi misserum. „Það hefur auðvitað verið erfitt að sækja styrktaraðila í þessu ástandi en við í golfklúbbnum tókum meðvitaða ákvörðun nú í vor að horfa til ferðaþjónustuaðila á Vesturlandi þegar við þurfum að kaupa verðlaun í golfmót. Þannig vinna allir og hjól atvinnulífsins fara að snúast aftur af stað,“ segir hún.

Þegar Skessuhorn ræddi við Rakel í gærmorgun voru 113 kylfingar skráðir en hámarksfjöldi í mótið er 144. „Skráningu lýkur í kvöld og ég hef fulla trú á því að það verði fullt. Goflkúbburinn Leynir er með þrjá skráða keppendur, þau Valdísi Þóru Jónsdóttur, Alex Hinrik Haraldsson og Björn Viktor Viktorsson,“ segir framkvæmdastjórinn sem var í óðaönn að undirbúa mótið. „Handtökin við að halda svona mót eru mörg. Sjálfboðaliðar í klúbbnum koma mikið að þessu móti og við erum svo rík í Leyni að við eigum fullt af félagsmönnum sem bjóða sig fram við hin ýmsu verkefni sem tengjast mótinu,“ segir Rakel Óskarsdóttir að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir