Rögnvaldur Ólafsson, Hjörtur Ragnarsson og Jón Bjarki Jónatansson á svæðinu sem nú er verið að breyta í golfvöll. Ljósm. af.

Framkvæmdir hafnar við golfvöllinn í Rifi

Félagar í Golfklúbbnum Jökli hófust handa við gerð nýs níu golfvallar í Rifi í síðustu viku. Byrjað var á að móta flatir og sá í þær. Jón Bjarki Jónatansson, formaður golfklúbbsins, segir að framkvæmdir fari vel af stað. „Við erum búnir að móta þrjár flatir og verðum í því í sumar að móta flatir og sá í þær og leggja niður vökvunarkerfi vallarins. Það verður svona stóra verkefni sumarsins,“ segir Jón Bjarki í samtali við Skessuhorn. „Vökvunarkerfið er það flottasta sem til er á markaðnum sjálvirkt kerfi sem er stýrt í gegnum tölvu. Það verður ekki mörgt ár að borga sig upp í vinnusparnaði og mikið öryggi að hafa vökvunarkerfi til að geta alltaf gripið inn í og vökvað flatir og teiga ef þarf,“ segir hann. „Síðan skemmir ekki að efnið sem fyrir er á staðnum er afar hentug til verksins af náttúrunnar hendi. Þetta er blanda af sandi og mold sem ég held að margir vildu eiga jafn greiðan aðgang að og við þegar verið er að byggja golfvelli. Þannig að þetta lítur allt saman vel út og við hjá klúbbnum erum fullir tilhlökkunar fyrir þessu verkefni,“ segir Jón Bjarki.

Klár fyrir stórafmælið

Þegar búið er að sá í flatirnar er einangrunardúkur lagður yfir þær og landið fær að gróa þar undir og grasið að vaxa. „Það gerist nokkuð fljótt ef hitinn verður góður og við fáum gott veður í sumar, þá virkar þetta í rauninni bara eins og gróðurhús,“ segir Jón Bjarki. „Næsta sumar verður farið í að útbúa brautir og teiga. Þar er vinnulagið eins og við gerð flatanna, grasið sem fyrir er fjarlægt og síðan sáð í og vökvað,“ segir hann. Að svo búnu þarf tíminn að fá að vinna sín handtök. Jón Bjarki vonast til að geta tekið völlinn í notkun innan fárra ára. „Klúbburinn á 50 ára afmæli 2023 og markmiðið er að geta spilað á nýja vellinum eigi síðar en á afmælisárinu. Vonandi getum við tekið hann í notkun fyrr, en það fer eftir tíðarfari og fleiru,“ segir Jón Bjarki. „Þetta ferli er búið að taka langan tíma og mjög jákvætt að það sé komið í gang,“ bætir hann við.

Jökullinn í baksýn

Nýi golfvöllurinn í Rifi er svokallaður „linksvöllur“, sem er elsta gerð golfvalla í heiminum. Af þeirri gerð voru fyrstu golfvellirnir í Skotlandi í árdaga íþróttarinnar. Hafa slíkir vellir stundum verið nefndir strandvellir á íslensku, byggðir í sendnu landi við sjávarsíðuna, með stífum brautum og hröðum flötum.

Strandvöllurinn í Rifi er í fallegu umhverfi á Breiðinni með Snæfellsjökul í baksýn. Hönnuður vallarins er Edwin Roald, sem hefur hannað marga golfvelli hér á landi. „Hann er búinn að vera með okkur frá degi eitt og hefur verið okkur innan handar með hvaðeina. Við fengum hann til okkar áður en nokkuð var ákveðið til að athuga hvort þetta væri yfirleitt mögulegt. Honum leist strax vel á þennan stað. Jökullinn verður í baksýn og þetta verður mjög fallegt,“ segir Jón Bjarki að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir