Embla Kristínardóttir í leik með landsliðinu. Ljósm. FIBA/.

Landsliðskonan Embla Kristínardóttir í Skallagrím

Körfuknattleikskonan Embla Kristínardóttir mun leika með Skallagrími í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik næsta vetur. Greint var frá því á föstudag að Embla hefði samið við Skallagrím til næstu tveggja ára.

Embla er 24 ára gömul og leikur stöðu bakvarðar. Hún gengur til liðs við Skallagrím frá Fjölni, þar sem hún lék síðasta vetur í 1. deildinni. Embla er hins vegar uppalin Keflvíkingur og hefur lengst af sínum meistaraflokksferli leikið með uppeldisfélagi sínu og orðið með því bæði Íslands- og bikarmeistari. Hún hefur einnig leikið með Grindavík á sínum ferli.

Embla á að baki 21 landsleik með A-landsliði Íslands og lék meðal annars með liðinu á smáþjóðaleikunum 2013, 2015, 2017 og 2019. Þá á hún að baki fjölda leikja með yngri landsliðunum Íslands.

Embla flytur í Borgarnes og kveðst full tilhlökkunar að ganga til liðs við Skallagrím. „Ég er ótrúlega spennt fyrir nýjum tímum með Skallagrími sem náði geggjuðum árangri seinasta vetur. Ég vona að ég geti hjálpað liðinu á sem bestan veg á komandi leiktíð,“ er haft eftir Emblu á Facebook-síðu kkd. Skallagríms. „Ég tek þessu nýja og óvænta verkefni fagnandi,“ segir hún.

Þar lýsir Guðrún Ósk Ámundadóttir, þjálfari Skallagríms, jafnframt ánægju með að fá Emblu til liðsins. „Það gleður mig mikið að fá Emblu í liðið okkar, hún þekkir deildina vel og er mikilvæg viðbót í hópinn. Hún er með mikla reynslu og hefur meðal annars spilað með A landsliði Íslands. Hún er fjölhæfur leikmaður sem mun hjálpa okkur á báðum endum vallarins,“ segir Guðrún Ósk.

Líkar þetta

Fleiri fréttir