Golfparið Guðrún Brá og Guðmundur Ágúst, Íslandsmeistarar 2019 mæta til leiks á Hlíðavelli. Auk þeirra m.a. Valdís Þóra Jónsdóttir og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Bjarki Pétursson og Haraldur Franklín Magnús, svo einhverjir séu nefndir. Ljósm. kylfingur.is

Verður sterkasta golfmót sem haldið hefur verið á Íslandi

Allir bestu kylfingar landsins mæta til leiks á Hlíðavelli í Mosfellsbæ til þátttöku á fyrsta móti tímabilsins, ÍSAM mótinu, á heimslistamótaröðinni á Íslandi 16.-17. maí. Íslensku atvinnukylfingarnir eru nú allir á landinu og fá að taka þátt. Þetta verður því án efa sterkasta mót sem haldið hefur verið í langan tíma á Íslandi, að því að fram kemur á kylfingur.is

„Margt bendir til þess að þetta mót verði eina WAGR mótið í Evrópu og jafnvel heiminum sem leikið verður á þessum tíma. Leikið verður eftir sérstökum Covid-19 keppnis- og staðarreglum. „Heimslistamótaröðin í golfi var sett á dagskrá á Íslandi árið 2019. Markmiðið með mótaröðinni er að keppendur fái tækifæri til að styrkja stöðu sína á heimslista áhugakylfinga WAGR. Atvinnukylfingum var sérstaklega boðið á mótið í ár þar sem að engin verkefni eru fyrir atvinnukylfinga erlendis. Í kvennaflokki eru atvinnukylfingarnir Guðrún Brá Björgvinsdóttir (GK), Valdís Þóra Jónsdóttir (GL) og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir (GR) skráðar til leiks. Þær hafa ekki keppt á sama golfmóti frá því á Íslandsmótinu á Akureyri árið 2016. Í karlaflokki eru einnig allir sterkustu atvinnukylfingar landsins á meðal keppenda. Axel Bóasson (GK), Andri Þór Björnsson (GR), Bjarki Pétursson (GKB), Guðmundur Ágúst Kristjánsson (GR, Haraldur Franklín Magnús (GR) og Ólafur Björn Loftsson (GKG).

Í flokki áhugakylfinga eru einnig allir sterkustu áhugakylfingarnir. Flestir þeirra sem stunda nám í Bandaríkjunum eru staddir á Íslandi vegna Covid-19 og af þeim sökum er keppendahópurinn á heimslistamóti ÍSAM-mótinu mjög sterkur. Mótið er einnig áhugavert fyrir þær sakir að keppnisvöllurinn, Hlíðavöllur, verður einnig í aðalhlutverki þegar Íslandsmótið í golfi hefst í byrjun ágúst. Og verður það í fyrsta sinn sem Íslandsmótið í golfi fer fram hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar,“ segir á kylfingur.is

Helgina 23.-24. maí verður síðan fyrsta stigamót ársins á mótaröð GSÍ. Það fer fram á Garðavelli í umsjón Golfklúbbsins Leynis á Akranesi. Þar er búist við rúmlega 140 keppendum. Þeirra á meðal flestum þeirra sem nú þegar hafa skráð sig til leiks á ÍSAM-mótið um næstu helgi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir