Svipmynd úr leik Snæfells í Domino‘s deild kvenna síðastliðinn vetur. Ljósm. úr safni/ sá.

Snæfell í þjálfaraleit

Körfuknattleiksdeild Snæfells hefur auglýst eftir þjálfara fyrir meistaraflokka félagsins. Kvennalið Snæfells lék sem kunnugt er í Domino‘s deild kvenna síðasta vetur en karlarnir í 1. deildinni. Leitað er að einstaklingi með reynslu og menntun í körfuknattleiksþjálfun til að stýra meistaraflokksliðunum og eiga samstarf við yngri flokka félagsins.

Þjálfaramál Snæfells hafa verið nokkuð í deiglunni undanfarið ár, einkum hjá karlaliði félagsins. Vladimir Ivankovic var látinn fara frá félaginu í október síðasta haust, eftir að hafa stýrt karlaliðinu í rúmlega eitt ár í 1. deildinni. Jón Þór Eyþórsson og Baldur Þorleifsson tóku þá tímabundið við þjálfun liðsins. Benjamin Kil var síðan ráðinn inn í þjálfarateymi Snæfells í nóvember sem spilandi þjálfari, en Jón Þór steig til hliðar sem aðalþjálfari liðsins.

Gunnlaugur Smárason tók við þjálfun kvennaliðsins í fyrravor af Baldri Þorleifssyni, sem hafði stjórnað liðinu í einn vetur. Gunnlaugur stýrði liðinu í Domino‘s deildinni á undangengnu keppnistímabili, þar til það var blásið af vegna Covid-19 faraldursins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir