Keira Robinson spilar og þjálfar áfram með Skallagrími

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur samið við hina mögnuðu Keiru Robinson um að spila áfram með liðinu í Domino’s deildinni á næsta tímabili. Frá þessu var greint á Facebook síðu félagsins í morgun. Keira, sem er 25 ára gömul og frá Bandaríkjunum, átti frábært tímabil með Skallagrími í vetur. Hún lék aðalhlutverkið í vörn og sókn og leiddi liðið eftirminnilega til bikarmeistaratitils í fyrsta skipti í sögu félagsins. Eftir bikarúrslitaleikinn var hún valin besti leikmaðurinn. Þá var hún einnig besti leikmaður Domino´s deildarinnar á tímabilinu, með 24,1 stig að meðaltali, tók 8,6 fráköst og átti 5,2 stoðsendingar að meðaltali í leik.

„Því er mikil ánægja með að Keira verði áfram í Borgarnesi enda góð fyrirmynd innan vallar sem utan. Hún mun einnig koma að yngri flokka þjálfun á næsta tímabili en það gerði hún líka í vetur með góðum árangri,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir