Gamli vitinn á Akranesi. Olía á striga eftir Smára Jónsson.

Heldur myndlistarsýningu á netinu á föstudaginn

Smári Jónsson, eða Smári kokkur eins og hann er oft kallaður, heldur myndlistasýningu á netinu á föstudaginn, 3. apríl næstkomandi. Smári kemur frá Akranesi en hefur undanfarin ár búið í Altea á Spáni ásamt Guðbjörgu Níelsdóttur Hansen, eiginkonu sinni. „Altea er mikill listamannabær á Costa Blanca ströndinni og er það ein af ástæðunum fyrir því að við fluttum hingað,“ segir Smári. „Margir íslenskir ferðamenn sem hafa komið til Benidorm og Albir, næsta bæjar við okkur, þekkja Altea enda mæla ferðaskrifstofur með því að fólk skreppi í gamla bæinn í Altea sem er einstaklega fallegur og heillandi,“ segir hann.

Málandi matreiðslumeistari

Smári er matreiðslumeistari til rúmlega þriggja áratuga og hefur myndlist verið eitt af hans áhugamálum í gegnum tíðina. „Ég er búinn að dunda mér við að mála í fjölda ára, það er frábært að búa hér með þetta áhugamál,“ segir hann. „Síðastliðið haust var óskað eftir því við mig af eigendum mikils listamannabars hér í gamla bænum, að ég myndi setja upp einkamyndlistarsýningu hjá þeim á þessu ári, sem mér þótti mikill heiður af. Ég þáði boðið og stóð til að sýningin yrði opnuð 3. apríl næstkomandi. Af því verður að sjálfsögðu ekki þar sem mjög strangt útgöngubann er hérna núna,“ segir hann. „En í millitíðinni var mér boðið að taka þátt í samsýningu listamanna sem búa hér, fólk af fimm þjóðernum, sem ég þáði,“ bætir hann við.

Myndbandsmyndlistarsýningin Heimþrá

Smári hefur málað töluvert mikið undanfarinn vetur, til að eiga nóg til að fylla húsið fyrir sýninguna sem áformuð var. Þegar hún var slegin af ákvað Smári að halda sínu striki og opna myndlistarsýningu með öðru sniði. „Ég ætla að vera með myndbandsmyndlistarsýningu á föstudaginn, 3. apríl,“ segir hann. „Sýningin heitir Heimþrá og er nafnið til komið af myndefninu sem er ansi mikið frá Skaganum og nágrenni. Ég er líka að leika mér svolítið með birtu, sólsetur, sólarupprás og margt þar á milli,“ bætir hann við. „Ég lít á þetta sem mitt framlag til að lýsa upp daginn fyrir fólk á útgöngubanns- og samkomubannstímum og vonast til þess að þetta gleðji einhverja,“ segir Smári að endingu.

Sýningin Heimþrá hefst á föstudaginn, 3. apríl kl. 18:15. Hægt verður að fylgjast með sýningunni á Facebook-síðunni Smari Art, á persónulegri Facebook-síðu Smára og á YouTube rásinni hans. Sýningin er opin öllum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Nýr formaður SFS

Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma á Siglufirði, hefur tekið við formennsku af Jens Garðari Helgasyni í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Tveir... Lesa meira