Driplað í gegnum ástandið

Nú þegar erfitt er að halda úti æfingum í körfuknattleik, sem öðrum íþróttum, hefur Körfuknattleikssamand Íslands ákveðið að láta ástandið ekki koma í veg fyrir æfingar. „Það er mikilvægt í því ástandi sem er núna að krakkar jafnt sem fullorðnir næri nú vel líkama og sál með góðri æfingu og því er um að gera að nýta það sem hægt er til að gera æfingar heima,“ segir í tilkynningu frá KKÍ. Þar kemur Driplið hjá KKÍ sterkt inn. Um er að ræða tækniþjálfun sem ætluð er krökkum á aldrinum 9-11 ára en í raun eru æfingarnar óháðar aldri. Ekki þarf einu sinni bolta til að reyna við æfingarnar. „Það er því tilvalið fyrir foreldra til dæmis að gera þessar æfingar með börnunum sínum,“ segir í tilkynningunni.

Hægt er að nálgast Driplið á slóðinni http://kki.is/fraedslumal/driplid/  sem og á YouTube rás KKÍ. Til þess að fá sem flesta til að taka þátt í leiknum hefur KKÍ ákveðið að setja af stað samfélagsmiðlaleik á Instagram. Krakkar sem fullorðnir eru hvattir til að setja inn myndband af sér eða öðrum að gera tækniæfingarnar frá Driplinu og nota #driplið og #korfubolti til að merkja færslurnar. Leikurinn hefst í dag, miðvikudaginn 18. mars og verða þrír til fimm vinningshafar dregnir út á hverjum degi. Meðal vinninga er gjafabréf á Domino‘s, Gatorade íþróttadrykkur, körfubolti og ýmislegt fleira.

Líkar þetta

Fleiri fréttir