Keppni hætt í mörgum deildum og flokkum

Íslandsmótinu í körfuknattleik er lokið í 2. deild karla og kvenna, 3. deild karla, unglingaflokki karla, stúlknaflokki, drengjaflokki, 10., 9., 8., og 7. flokkum drengja og stúlkna sem og í minnibolta 9, 10 og 11 ára drengja og stúlkna. Enginn deildar- eða Íslandsmeistari verður krýndur í þessum deildum og flokkum. Mótanefnd og stjórn Körfuknattleikssambands Íslands ákváðu að svo skyldi verða, í ljósi heimsfaraldurs COVID-19 kórónaveirunnar og fjögurra vikna samkomubanns sem lýst var yfir vegna hennar á föstudaginn.

Þau meistaraflokkslið á Vesturlandi sem þessi ákvörðun hefur áhrif á eru ÍA og Grundarfjörður. Skagamenn ljúka því keppni í 10. sæti 2. deildar karla og Grundfirðingar í 7. sæti 3. deildar karla. Auk þess hefur ákvörðunin vitaskuld áhrif á keppni allra þeirra yngri flokka liða í landshlutanum sem taldir voru upp hér að ofan.

Efstu deildum frestað

Keppni í Domino‘s deildum karla og kvenna sem og 1. deildum karla og kvenna hefur verið frestað á meðan samkomubann er í gildi. Endanleg ákvörðun um framhald deildanna verður tilkynnt næstkomandi miðvikudag, „þegar íþróttahreyfingin hefur fengið rými til að ræða frekar við sóttvarnalækni og almannavarnir um þá stöðu sem er uppi og með hvaða hætti samkomu- og nálægðarbann hefur áhrif á íþróttahreyfinguna,“ segir í tilkynningu frá KKÍ.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

21 smit í gær

Alls greindist 21 innanlandssmit Covid-19 faraldursins í gær (fimmtudag). Sjö þeirra sem greindust voru í sóttkví við greiningu, en 14... Lesa meira