Ljósm. úr safni/ sá.

Snæfellingar burstaðir

Snæfellingar steinlágu gegn sterku liði Breiðabliks, 114-69, þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik. Leikið var í Kópavogi í gærkvöldi.

Blikar réðu ferðinni frá fyrstu mínútu og náðu snemma öruggri forystu. Snæfellingar áttu slakan upphafsfjórðung á meðan Breiðablik lék á als oddi. Heimamenn leiddu með 34 stigum gegn tólf eftir fyrsta leikhluta. Snæfellingar náðu aðeins að minnka muninn í upphafi annars leikhluta en það dugði skammt. Breiðablik sótti í sig veðrið á nýjan leik og var 33 stigum yfir í hálfleik, 62-29.

Síðari hálfleikur var einstefna eins og sá fyrri. Blikar leiddu 90-44 eftir þrjá leikhluta og því forskoti héldu þeir meira og minna óbreyttu í lokafjórðungnum. Þegar lokaflautan gall hafði Breiðablik skorað 114 stig gegn 69 stigum Snæfells.

Brandon Cataldo skoraði 24 stig og reif niður 19 fráköst í liði Snæfells. Anders Gabriel Andersteg var með tólf stig, sex stoðsendingar og fimm fráköst, Ísak Örn Baludrsson skoraði tólf stig, Benjamín Ómar Kristjánsson var með níu stig, Ellert Þór Hermundsson var með sjö stig og Aron Ingi Hinriksson skoraði fimm.

Árni Elmar Hrafnsson var stigahæstur í liði Breiðabliks með 28 stig og sjö stoðsendingar að auki. Larry Thomas skoraði 25 stig, tók 17 fráköst og gaf sex stoðsendingar, Dovydas Strasunskas skoraði 16 stig og tók fimm fráköst og Hilmar Pétursson var með 13 stig og fimm fráköst.

Snæfellingar verma botnsæti deildarinnar með fjögur stig, jafn mörg og Sindri í sætinu fyrir ofan. Þessi tvö lið mætast í Stykkishólmi laugardagin 21. mars næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir