Skjáskot af blaðamannafundinum.

Samkomubanni lýst yfir – Framhaldsskóla- og háskólanemar sendir heim

Samkomubanni hefur verið lýst yfir frá miðnætti á sunnudag, 15. mars næstkomandi, vegna COVID-19 faraldursins. Samkomubannið gildir í fjórar vikur frá þeim degi og takmarkast við hundrað manns. Viðburðir og samkomur þar sem fleiri en 100 koma saman verða óheimilir. Þetta kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á blaðamanna fundi núna kl. 11:00 í dag.

Á samkomum og viðburðum sem telja færri en 100 manns verður gert ráð fyrir fjarlægðarmörkum, að minnst tveir metrar séu á milli fólks. Er þetta í fyrsta sinn í lýðveldissögunni sem samkomubanni er lýst yfir.

Auk þess hefur verður gripið til sérstakra ráðstafana í menntakerfinu. Framhalds- og háskólum verður lokað og þeir munu sinna sínu starfi í gegnum fjarnám, að því er fram kom í máli Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra.

Kennslu í grunn- og leikskólum landsins verður haldið áfram en með takmörkunum og að sérstaklega uppfylltum ákveðnum skilyrðum, meðal annars að börn verði í sem minnstum hópum og aðskilin eins og kostur er. Verður það útfært nánar á hverjum stað í samráði við sveitarfélögin. „Okkar mat er, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, að þetta sé það langt sem við eigum að ganga á þessum tímapunkti,“ sagði Lilja.

Samkomubannið nær ekki til alþjóðahafna og alþjóðaflugvalla, að því er fram kom í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis.

Líkar þetta

Fleiri fréttir