Ljósm. úr safni/ kgk.

Lyftu sér upp í þriðja sæti

Skallagrímskonur lyftu sér upp í þriðja sæti Domino‘s deildar kvenna í körfuknattleik með sterkum útisigri á Haukum í gærkvöldi. Borgnesingar höfðu undirtökin stærstan hluta leiksins og sigruð að endingu með sjö stigum, 69-76.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og mjótt á mununum. Skallagrímskonur voru þó heldur ákveðnari og höfðu fjögurra stiga forskot eftir upphafsfjórðunginn, 18-22. Þær höfðu áfram undirtökin í öðrum leikhluta en náðu þó ekki að slíta sig frá Haukum. Borgnesingar leiddu með fjórum stigum í hálfleik, 29-33.

Skallagrímskonur voru sterkari eftir hléið en eins og í fyrri hálfleik náðu þær aldrei almennilega að hrista Haukakonur af sér. Tvisvar náðu þær níu stiga forskoti í þriðja leikhluta en Haukar svöruðu fyrir sig í bæði skiptin. Skallagrímur leiddi með sjö stigum fyrir lokafjórðunginn, 44-51. Haukakonur voru mjög ákveðnar í upphafi fjórða leikhluta og komust yfir í fyrsta sinn í leiknum í stöðunni 52-51. Þá tóku Skallagrímskonur sig til og skoruðu átta stig í röð og tóku stjórn leiksins í sínar hendur á ný. Virtist það koma illa við Haukaliðið, sem átti nokkrar sóknir í röð sem runnu út í sandinn. Því fór svo að lokum að Skallagrímur sigraði með sjö stigum, 69-76.

Keira Robinson átti stórgóðan leik í liði Skallagríms, skoraði 26 stig, tók tíu fráköst og gaf sex stoðsendingar. Mathilde Colding-Poulsen skoraði 19 stig, Maja Michalska var með 15 stig, Emilie Hesseldal skoraði 14 stig, tók tólf fráköst og gaf sex stoðsendingar, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði eitt stig og tók sex fráköst og Árnína Lena Rúnarsdóttir skoraði eitt stig einnig.

Randi Brown var atkvæðamest í liði Hauka með 31 stig og ellefu fráköst, Rósa Björk Pétursdóttir skoraði 16 stig og tók sex fráköst en aðrar höfðu minna.

Skallagrímskonur hafa 28 stig í þriðja sæti deildarinnar, jafn mörg og Keflavík í sætinu fyrir neðan en Keflvíkingar eiga þó leik til góða. Haukar eru tveimur stigum þar fyrir neðan, en Skallagrímur hefur sigrað þrjár af fjórum innbyrðis viðureignum liðanna í vetur.

Næsti leikur Borgnesinga er Vesturlandsslagur gegn Snæfelli á miðvikudaginn, 4. mars. Sá leikur fer fram í Borgarnesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir