Ljósm. úr safni/ sá.

Gestirnir öflugri í seinni hálfleik

Snæfellingar máttu sætta sig við tap á heimavelli gegn Hetti þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöld. Staðan var jöfn í hálfleik en í seinni hálfleik réðu gestirnir ferðinni og sigruðu að lokum örugglega, 71-89.

Hattarmenn höfðu heldur yfirhöndina í upphafi leiks og leiddu með níu stigum eftir fyrsta leikhluta, 18-27. Snæfellingar voru öflugir í öðrum leikhluta. Þeir minnkuðu muninn í þrjú stig áður en gestirnir svöruðu fyrir sig. Aftur tóku Snæfellingar góðan sprett og náðu að jafna metin áður en flautað var til hálfleiks, 39-39.

Gestirnir höfðu yfirhöndina í síðari hálfleik. Hægt en örugglega voru þeir komnir 18 stigum yfir eftir þriðja leikhlutann, 53-71 og sú forysta hélst að mestu óbreytt allt til leiksloka. Lítil tíðindi voru af stöðutöflunni í lokafjórðungnum og Höttur sigraði að lokum með 18 stigum, 71-89.

Brandon Cataldo var atkvæðamestur í liði Snæfells með 20 stig og 17 fráköst. Anders Andersteg skoraði 18 stig og tók átta fráköst, Guðni Sumarliðason var með 17 stig og fimm fráköst, Aron Ingi Hinriksson skoraði sjö stig, Ísak Örn Baldursson var með sex stig, Ellert Þór Hermundarson skoraði tvö stig og Viktor Brimnir Ásmundarson var með eitt stig.

Dino Stipcic var atkvæðamestur gestanna með 27 stig, sjö fráköst og fimm stoðsendingar. David Guardia Ramos skoraði 19 stig og tók átta fráköst, Eysteinn Bjarni Ævarsson skoraði 18 stig og Marcus Jermaine Van skoraði 15 stig og tók 17 fráköst.

Snæfellingar verma botnsæti deildarinnar með fjögur stig, jafn mörg og Sindri en tveimur stigum á eftir Skallagrími í sætinu þar fyrir ofan. Næst leika Snæfellingar á sunnudaginn, 9. mars næstkomandi, þegar þeir mæta Álftnesingum í Stykkishólmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Nýr formaður SFS

Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma á Siglufirði, hefur tekið við formennsku af Jens Garðari Helgasyni í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Tveir... Lesa meira