Stelpurnar í Slippfélaginu voru stigahæsta lið kvöldsins þegar keppt var í fjórgangi.

Stelpurnar í Slippfélaginu hæstar eftir fyrsta kvöld Vesturlandsdeildarinnar

Fyrsta keppniskvöldið í Vesturlandsdeildinni í hestaíþróttum fór fram í Faxaborg í Borgarnesi á föstudaginn þegar keppt var í fjórgangi. Í deildinni keppa sex lið sem hvert hefur á að skipa fimm knöpum en þrír knapar taka þátt í hverri keppnisgrein. Keppt er bæði til A-úrslita og B-úrslita en eins og tíðkast nú í mörgum deildum þá ríður sigurvegari B-úrslita ekki til A-úrslita. Flýtir það fyrirkomulag fyrir framkvæmd mótsins.

Sigurvegari B-úrslita var Sigurður Rúnar Pálsson á Bessa frá Húsavík með einkunnina 6,63. Þær Iðunn Svandóttir á Sigurrós frá Söðulsholti og Hrefna María Ómarsdóttir urðu jafnar í 7.-8. sæti með einkunnina 6,47. Það var hins vegar Þórdís Erla Gunnarsdóttir sem stóð uppi sem sigurvegari að loknum A-úrslitum með einkunnina 7,17 en þetta var þeirra fyrsta keppni í fjórgangi innandyra. Siguroddur Pétursson varð annar með 7,03 og í þriðja sæti Randi Holaker með 6,83 í einkunn. Jafnir í 4.-5. sætinu urðu þeir Guðmar Þór Pétursson og Haukur Bjarnason.

Það voru stelpurnar í Slippfélaginu sem voru stigahæsta lið kvöldsins en úr því liði komust allir knapar í úrslit; þær Þórdís Erla, Hrefna María og Iðunn Silja. Næsta mót í Vesturlandsdeildinni er 13. mars en þá verður keppt í slaktaumatölti.

A-úrslit

 1. Þórdís Erla Gunnarsdóttir & Fengur frá Auðsholtshjáleigu; 7,17
 2. Siguroddur Pétursson & Eyja frá Hrísdal; 7,03
 3. Randi Holaker & Þytur frá Skáney; 6,83
 4. Guðmar Þór Pétursson & Ástarpungur frá Staðarhúsum: 6,67
 5. Haukur Bjarnason & Ísar frá Skáney; 6,67.

B-úrslit

 1. Sigurður R. Pálsson & Bessi frá Húsavík; 6,63
 2. Hrefna María Ómarsdóttir & Eva frá Álfhólum; 6,47
 3. Iðunn Lilja Svansdóttir & Sigurrós frá Söðulsholti; 6,47
 4. Leifur George Gunnarsson & Sveðja frá Skipaskaga; 6,40
 5. Linda Rún Pétursdótttir & Baltasar frá Korpu; 6,30
 6. Berglind Ragnarsdóttir & Smyrill frá Vorsabæ II; 6,30.

Þórdis Erla og Fengur frá Auðholtshjáleigu urðu hæst í A úrslitum með einkunnina 7,17.

Líkar þetta

Fleiri fréttir