Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Hársbreidd frá sigri

Skallagrímsmenn voru grátlega nálægt því að leggja Selfyssinga á útivelli í gær, þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik. Um háspennuleik var að ræða þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en eftir framlengingu. Selfyssingar höfðu sigur með tveimur stigum, 82-80.

Skallagrímsmenn voru mun öflugri í upphafsfjórðungnum á meðan heimamenn fundu sig ekki. Borgnesingar skoruðu 25 stig gegn ellefu og leiddu afgerandi eftir fyrsta leikhluta. En þeim gekk illa í öðrum fjórðungi, skoruðu aðeins fimm stig fyrstu sjö mínútur hans. Á meðan minnkuðu heimamenn muninn í tvö stig en Skallagrímur átti lokaorðið í fyrri hálfleik og leiddi með fimm stigum í hléinu, 32-37.

Jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta. Skallagrímur leiddi en Selfyssingar fylgdu fast á hæla þeirra. Þegar leikhlutinn var úti munaði fjórum stigum á liðunum, 53-57 og leikurinn galopinn. Selfyssingar voru ákveðnir í lokafjórðungnum, þar sem þeir jöfnuðu og komust síðan yfir. Þeir héldu nokkurra stiga forystunni þar til undir lokin. Borgnesingar voru þremur stigum undir þegar þeir sendu Selfyssinga á vítalínuna þegar fjórar sekúndur voru eftir. Með taugarnar þandar klikkuðu heimamenn á báðum vítaskotunum og Skallagrímsmenn náðu að koma þriggja stiga skoti á körfuna. Það fór ekki ofan í en Selfyssingar brutu á skotmanninum og því fékk Hjalti Ásberg Þorleifsson þrjú vítaskot til að jafna metin. Hann setti þau öll niður og tryggði Borgnesingum framlengingu.

Skallagrímur byrjaði framlenginguna á þriggja stiga körfu en heimamenn skoruðu næstu sjö stigin. Borgnesingar svöruðu fyrir sig og komust stigi yfir þegar sjö sekúndur lifðu leiks. En það var nægur tími fyrir Selfyssinga til að skora síðustu þrjú stigin í leiknum. Þeir fóru því með tveggja stiga sigur af hólmi, 82-80.

Kenneth Simms skoraði 27 stig og tók 13 fráköst í lði Skallagríms. Davíð Guðmundsson var með 18 stig, Hjalti Ásberg Þorleifsson skoraði ellefu stig og tók sjö fráköst, Kristján Örn Ómarsson skoraði ellefu stig og tók níu fráköst, Marinó Þór Pálmason var með fjögur stig og sex fráköst og þeir Isaiah Coddon, Kristófer Gíslason og Arnar Smári Bjarnason skoruðu þrjú stig hver.

Christian Cunningham var atkvæðamestur Selfyssinga. Hann skoraði 24 stig og reif niður 22 fráköst. Arnór Bjarki Eyþórsson skoraði 16 stig og tók fimm fráköst og Kristijan Vladovic skoraði tólf stig og tók fimm fráköst.

Skallagrímur situr í fjöunda sæti deildarinnar með sex stig, tveimur stigum meira en Sindri og Snæfell í sætunum fyrir neðan en tíu stigum á eftir liði Selfyssinga. Næsti leikur Borgnesinga er útileikur gegn Vestra þriðjudaginn 3. mars næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir