Ljósm. úr safni/ kgk.

Sóttu sigur á endasprettinum

Skallagrímskonur lyftu sér upp í fjórða sæti Domino‘s deildar kvenna í körfuknattleik með sigri á Grindvíkingum á útivelli í gærkvöldi. Eftir jafnan og spennandi leik sóttu Borgnesingar tíu stiga sigur á lokamínútunum með góðum endaspretti, 66-76.

Liðin skiptust á að leiða í fyrsta leikhluta. Skallagrímskonur leiddu 5-11 eftir fjögurra míntútna leik áður en Grindvíkingar komust yfir og leiddu 19-17 eftir upphafsfjórðunginn. Skallagrímsonur náðu góðum leikkafla í öðrum leikhluta, komust sex stigum yfir um miðbik leikhlutans áður en Grindvíkingar jöfnuðu metin. Mjótt var á mununum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og Skallagrímur var einu stigi yfir í hléinu, 34-35.

Mikið jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta og þau skiptust á að leiða leikinn. Alls köstuðu þau forystunni sex sinnum á milli sín þar til leikhlutinn var úti. Mest munaði fjórum stigum á liðunum þegar Grindavík leiddi seint í leikhlutanum, en Skallagrímskonur voru yfir fyrir lokafjórðunginn, 54-57. Heimakonur jöfnuðu snemma í fjórða leikhluta og leiddu með einu stigi um hann miðjan. En þá áttu Skallagrímskonur góðan leikkafla og sóttu sigurinn í með góðum endaspretti á lokamínútunum, 66-76.

Keira Robinson var atkævðamest í liði Skallagríms með 21 stig, 13 fráköst og fimm stoðsendingar. Mathilde Colding-Poulsen var með 19 stig. Litlu munaði að Emilie Hesseldal setti upp þrennu í leiknum. Hún skoraði 17 stig, gaf tíu stoðsendingar, tók átta fráköst og stal sex boltum. Árnína Lena Rúnarsdótti skoraði sjö stig, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var með sex stig og átta fráköst, Maja Michalska skoraði fjögur stig og Gunnhildur Lind Hansdóttir var með tvö stig.

Jordan Reynolds var atkvæðamest í liði Grindavíkur og var hársbreidd frá því að setja upp þrennu. Hún skoraði 19 stig, reif niður 22 fráköst og gaf níu stoðsendingar. Tania Pierre-Marie skoraði 14 stig og tók níu fráköst og Bríet Sif Hinrikdsdóttir var með tíu stig og fimm fráköst.

Skallagrímskonur hafa 26 stig í fjórða sæti deildarinnar, jafn mörg og Haukar í sætinu fyrir neðan en tveimur stigum minna en Keflavík. Næsti leikur Borgnesinga er útileikur gegn Haukum á sunnudaginn, 1. mars næstkomandi. Er hann afar mikilvægur í baráttunni um fjórða sæti deildarinnar og þar með sæti í úrslitakeppninni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir