Ljósm. úr safni/ sá.

Íslandsmeistararnir of stór biti

Snæfellskonur biðu lægri hlut gegn Íslandsmeisturum Vals, 74-99, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik. Leikið var í Stykkishólmi í gærkvöldi.

Jafnt var á með liðunum í upphafsfjórðungnum. Snæfell komst í 7-2 áður en Valur náði forystunni og leiddi með örfáum stigum framan af fjórðungnum. Undir lok fyrsta leikhluta komst Snæfell yfir að nýju og hafði tveggja stiga forskot að honum loknum, 24-22. Valur komst yfir í upphafi annars leikhluta en Snæfellskonur fylgdu fast á hæla gestanna. Þegar stutt var til hálfleiks munaði sjö stigum á liðunum, í stöðunni 39-46. Þá tóku Valskonur mikla og góða rispu, skoruðu 15 stig gegn tveimur og fóru með 20 stiga forskot inn í hálfleikinn, 41-61.

Snæfellskonur voru ívið öflugri eftir hléið, skoruðu 17 stig gegn 14 í þriðja leikhluta og munaði 17 stigum á liðunum fyrir lokafjórðunginn, 58-75. Sú brekka var einfaldlega of brött gegn sterku liði Vals. Snæfellskonur minnkuðu muninn í 15 stig snemma í fjórða leikhluta en nær komust þær ekki. Valskonur léku vel það sem eftir lifði leiks og sigruðu að lokum með 25 stigum, 74-99.

Amarah Coleman var atkvæðamest í liði Snæfells með 24 stig og sjö fráköst. Emese Vida skoraði 16 stig og tók tíu fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir var með ellefu stig og sex fráköst, Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði sjö stig, Veera Pirttinen skoraði sex stig, Anna Soffía Lárusdóttir var með fjögur stig og þær Björg Guðrún Einarsdóttir og Rebekka Rán Karlsdóttir skoruðu þrjú stig hvor.

Kiana Johnson skoraði 28 stig og tók tólf fráköst í liði Vals, Dagbjört Dögg Káradóttir var með 20 stig og fimm fráköst, Helena Sverrisdóttir skoraði 13 stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar og Dagbjört Samúelsdóttir skoraði tíu stig.

Snæfell situr í sjötta sæti deildarinnar með 14 stig, er tólf stigum á eftir Haukum og Skallagrími í sætunum fyrir ofan en hefur átta stiga forskot á Breiðablik. Næsti leikur Snæfellskvenna er Vesturlandsslagur gegn Skallagrími miðvikudaginn 4. mars. Sá leikur fer fram í Borgarnesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir