Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Tap í spennandi leik

Skallagrímur beið lægri hlut gegn Selfossi eftir fjörugan leik í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikið var í Borgnarnesi. Heimamenn voru betri framan af, en þá var komið að Selfyssingum að leiða leikinn. Leikurinn var spennandi á lokamínútunum en að endingu fór svo að gestirnir höfðu sjö stigasigur, 78-85.

Skallagrímsmenn voru miklu betri í upphafi leiks. Þeir skoruðu fyrstu ellefu stig leiksins og héldu Selfyssingum stigalausum fyrstu fimm mínútur. Gestirnir skoruðu aðeins ellefu stig í upphafsfjórðungnum gegn 26 stigum Borgnesinga. Taflið snerist við í öðrum fjórðungi. Borgnesingar áttu erfitt uppdráttar og skoruðu bara 13 stig í leikhlutanum. Selfyssingar minnkuðu muninn jafnt og þétt og komust síðan yfir á lokamínútum fyrri hálfleiks og leiddu í hléinu, 40-39.

Gestirnir höfðu yfirhöndina eftir hléið, leiddu allan þriðja leikhlutann en Borgnesingar gættu þess að missa þá ekki of langt fram úr sér. Selfoss hafði átta stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 65-57. Borgnesingar voru ákveðnir í lokafjórðungnum. Þeir minnkuðu muninn í eitt stig en Selfyssingar sigu fram úr að nýju. Aftur gerðu Borgnesingar smá atlögu að forystu gestanna undir lokin, en komust ekki nær en sem nam fimm stigum. Selfoss sigraði að lokum með sjö stiga mun, 78-85.

Marinó Þór Pálmason var stigahæstur Skallagrímsmanna í leiknum með 20 stig og sex fráköst. Kenneth Simms skoraði 16 stig, reif niður 20 fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Kristján Örn Ómarsson var með 16 stig og sex fráköst, Davíð Guðmundsson skoraði tíu stig, Kristófer Gíslason skoraði sjö stig, Isaiah Coddon var með fjögur stig, Bergþór Ægir Ríkharðsson skoraði þrjú og Hjalti Ásberg Þorleifsson skoraði tvö stig.

Christian Cunningham var atkvæðamestur Selfyssinga með 21 stig og 17 fráköst. Kristijan Vladovic skoraði 20 stig og stal átta boltum, Arnór Bjarki Eyþórsson var með 16 stig, Maciek Klimaszewski skoraði ellefu og Alexander Gager var með tíu stig og sjö fráköst.

Skallagrímur situr í sjöunda sæti deildarinnar með sex stig, tveimur stigum meira en Sindri og Snæfell í sætunum fyrir neðan en átta stigum á eftir Selfyssingum. Skallagrímur og Selfoss mætast aftur í deildinni næstkomandi fimmtudagskvöld, 27. febrúar. Sá leikur verður spilaður á Selfossi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir