Ísak Örn Baldursson var atkvæðamestur Snæfellinga í tapinu gegn Hamri. Ljósm. úr safni/ sá.

Snæfell tapaði í Hveragerði

Snæfellingar máttu játa sig sigraða gegn Hamri, 108-79, þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöld.

Snæfellingar voru öflugri í upphafi leiks, komust í 4-11 en þá tóku heimamenn við sér. Þeir náðu forystunni í stöðunni 18-17 og leiddu með fjórum stigum eftir fyrsta leikhluta, 29-25. Snæfellingar byrjuðu betur í öðrum fjórðungi. Þeir komust yfir í stöðunni 31-32 áður en Hvergerðingar náðu forystunni að nýju. Um miðbik leikhlutans náðu heimamenn yfirhöndinni í leiknum og stjórnuðu ferðinni eftir það. Hamar leiddi með 15 stigum í hálfleik, 61-46.

Snæfellingar náðu nokkrum sinnum að minnka muninn í nálægt tíu stigum í þriðja leikhluta, en komust ekki nær. Hamar leiddi með 13 stigum eftir þrjá leikhluta, 79-66 og þeir juku forskot sitt jafnt og þétt í lokafjórðungnum. Þegar lokaflautan gall höfðu Hamarsmenn skoraði 108 stig gegn 79 stigum Snæfellinga.

Ísak Örn Baldursson var atkvæðamestur í liði Snæfells með 20 stig og sjö fráköst. Brandon Cataldo skoraði 17 stig og tók ellefu fráköst, Aron Ingi Hinriksson var með 16 stig, Guðni Sumarliðason skoraði tólf stig, Benjamín Ómar Kristjánsson var með sjö stig, Viktor Brimnir Ásmundarson fjögur og Eiríkur Már Sævarsson þrjú.

Ragnar Jósef Ragnarsson var atkvæðamestur heimamanna með 24 stig, sex stoðsendingar og fimm fráköst. Pálmi Geir Jónsson skoraði 22 stig og tók átta fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson var með 22 stig einnig og fimm stoðsendingar, Michael Philips skoraði 19 stig og tók níu fráköst og Ísak Sigurðarson var með ellefu stig og fimm stoðsendingar.

Snæfellingar verma botnsæti deildarinnar með fjögur stig, jafn mörg og Sindri í sætinu fyrir ofan en tveimur stigum á eftir Skallagrími. Næsti leikur Snæfells er gegn Hetti á föstudaginn, 28. febrúar. Hann verður leikinn í Stykkishólmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir