Isaiah Coddon prjónar sig í gegnum vörn Vestra. Ljósm. Skallagrímur/ Gunnhildur Lind Photography.

Naumt tap eftir spennandi leik

Skallagrímur tapaði naumlega gegn Vestra, 85-89, þegar liðin mættust í spennandi leik í 1. deild karla í körfuknattleik. Leikið var í Borgarnesi í gærkvöldi.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafsfjórðungnum og þau skiptust á að leiða leikinn. Gestirnir að vestan náðu góðri rispu undir lok leikhlutans og voru fimm stigum yfir að honum loknum, 20-25. Vestri leiddi framan af öðrum fjórðungi en Skallagrímsmenn fylgdu þeim eins og skugginn. Undir lok fyrri hálfleiks áttu Borgnesingar góðan kafla. Þeir komust yfir og fóru með sjö stiga forystu inn í hálfleikinn, 48-41.

Vestramenn voru öflugri í upphafi síðari hálfleiks. Þeir minnkuðu muninn í tvö stig og komust síðan yfir þegar komið var fram yfir miðjan þriðja leikhluta. En Skallagrímsmenn tóku forystuna að nýju og leiddu með einu stigi fyrir lokafjórðunginn, 63-62. Fjórði leikhluti var æsispennandi. Vestri tók forystuna á nýjan leik snemma leikhlutans en Skallagrímur jafnaði í 78-78 þegar fjórar mínútur lifðu leiks. Gestirnir voru síðan heldur sterkari á lokamínútum leiksins, héldu Skallagrími stigalausum næstu mínúturnar og sigruðu að lokum með fjórum stigum, 85-89.

Kristján Örn Ómarsson var stigahæstur Borgnesinga með 23 stig og níu fráköst að auki. Kenneth Simms skoraði 14 stig og tók níu fráköst, Kristófer Gíslason var með 13 stig og sex fráköst, Hjalti Ásberg Þorleifsson skoraði tólf stig, Isaiah Coddon var með tíu stig, Marinó Þór Pálmason var með fimm stig og níu stoðsendingar, Davíð Guðmundsson skoraði fjögur stig, Bergþór Ægir Ríkharðsson var með tvö stig og sjö stoðsendingar og Almar Örn Björnsson skoraði tvö stig einnig.

Nemanja Knazevic var atkvæðamestur í liði Vestra. Hann skoraði 26 stig og reif niður 21 frákast. Nebosja Knazevic skoraði 25 stig, gaf tíu stoðsendingar og tók sex fráköst og Marki Dmitrovic skoraði 14 stig, tók tólf fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

Skallagrímur situr í sjöunda sæti deildarinnar með sex stig, tveimur stigum meira en Sindri og Snæfell en sex stigum á  Selfyssingum, sem eru einmitt næstu mótherjar liðins. Leikur Skallagríms og Selfoss fer fram í Borgarnesi á mánudagskvöld, 24. febrúar næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir