Enrique Snær Llorens og Guðbjarni Sigþórsson settu báðir ný Akranesmet á mótinu. Ljósm. SA.

Tvö ný Akranesmet og fjöldi verðlauna

Tvö Akranesmet í sundi féllu á Gullmóti KR sem haldið var í Laugardalslaug um helgina. Sundfélag Akraness sendi 31 sundmann til keppni. Þátttaka í mótinu var mjög góð þar sem yfir 490 keppendur af landinu öllu tóku þátt.

Enrique Snær Llorens setti nýtt Akranesmet í 200 m skriðsundi í flokki fullorðinna, en hann synti á tímanum 2.01,79 mín. Þar með bætti hann 15 ára gamalt met Gunnars Smára Jónbjörnssonar um rúma sekúndu. Guðbjarni Sigurþórsson setti nýtt met drengja í 50 m flugsundi á tímanum 30,42 sek. Bætti hann met Hrafns Traustasonar frá 2006 um tólf sekúndubrot.

Fjórir keppendur Sundfélags Akraness syntu sig inn í Superchallenge í 50 m flugsundi. Það voru Guðbjarni sem hafnaði í öðru sæti í 13-14 ára flokki og Víkingur Geirdal sem hafnaði í áttunda sæti. Ragnheiður Karen Ólafsdóttir og Guðbjörgu Bjartey Guðmundsdóttir syntu í Superchallenge í 15-17 ára flokki. Ragnheiður hafnaði í fimmta sæti og Guðbjörg í því sjöunda.

Lið Sundfélags Akraness sigraði í boðsundi í flokki pilta 13-14 ára. Liðið skipuðu Víkingur, Guðbjarni, Bjarni Snær Skarphéðinsson og Mateuz Kuptel.

Í flokki 13-14 ára stúlkna varð boðsundsveitin í þriðja sæti sæti í báðum sundum sínum, en hana skipuðu þær Íris Arna Ingvarsdóttir, Auður María Lárusdóttur, Karen Káradóttir og Aldís Thea Daníelsdóttir Glad.

Boðsundsveit stúlkna 15 ára og eldri vann til tveggja bronsverðlauna, en þá sveit skipuðu þær Lára Jakobína Ringsted, Guðbjörg Bjartey Lárusdóttir, Ragnheiður Karen Ólafsdóttir og Svava Magnúsardóttir.

„Sundmenn frá SA stóðu sig gríðarlega vel og bættu sig mjög mikið yfir helgina og margir sundmenn að stíga sín fyrstu skref á svona stóru móti í 50 m laug. Allir krakkar 10 ára og yngri fengu þátttökuverðlaun fyrir sína frábæru frammistöðu,“ segir í tilkynningu frá sundfélaginu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir