Bikarmeistarar 2020. Ljósm. KKÍ/ Jónas H Ottósson.

Bikarinn á leiðinni í Borgarnes!

Kvennalið Skallagríms var rétt í þessu að landa sigri í úrslitaleik Geysisbikarsins í körfubolta 2020. Báru stelpurnar sigurorð af KR með stigatölunni 66-49. Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik, en í upphafi þess síðari sigldu Borgnesingar framúr og litu aldrei til baka, sömuleiðis sá KR liðið ekki til sólar. Bikarinn er því á leið í Borgarnes í fyrsta skipti, en síðasti stóri titill meistaraflokks var árið 1964 þegar liðið varð Íslandsmeistari. Því er von á gríðarlegum fagnaðarlátum í Borgarnesi í kvöld, en þannig hittir á að Þorrablót Skallagríms er einmitt haldið í Hjálmakletti í kvöld.

Keira Robinson var valin maður leiksins, en hún setti 32 stig í leiknum. Sömuleiðis átti Sigrún Sjöfn Ámundadóttir fantagóðan leik, en hún hirti meðal annars 14 fráköst og stjórnaði leiknum af festu. Systir hennar Guðrún Ósk er þjálfari liðsins en saman hafa þær systur og fjölskylda þeirra lyft grettistaki fyrir kvennakörfuboltann í Borgarnesi á undanförnum árum.

Til hamingju Skallagrímur!

Líkar þetta

Fleiri fréttir