Keira Robinson var frábær þegar Skallagrímur lagði Hauka í bikarundanúrslitaleiknum í gær. Ljósm. KKÍ.

Bikarúrslitin bíða Skallagríms

Skallagrímskonur mæta KR í úrslitaleik Geysisbikarsins á morgun, eftir frækinn sigur á Haukum, 86-79, í undanúrslitum bikarsins í gærkvöldi.

Skallagrímskonur mættu ákveðnar til leiks í Laugardalshöllinni og voru mun sterkara lið vallarins í upphafsfjórðungnum. Keira Robinson fór þar fremst í flokki, en hún skoraði 15 af 27 stigum Skallagríms í fyrsta leikhluta. Borgnesingar léku afar góða vörn í fyrsta leikhlutanum og samhliða góðum sóknarleik skilaði það þeim ellefu stiga forystu eftir fyrstu tíu mínútur leiksins, 27-16. Haukar gerðu hins vegar lítið annað en að safna villum í upphafsfjórðungnum, sem átti eftir að reynast þeim dýrkeypt síðar í leiknum.

Haukakonur voru þó ekkert á buxunum að leggja árar í bát. Þær gerðu áhlaup í öðrum leikhluta og tókst að minnka muninn í fimm stig þegar stutt var eftir af fyrri hálfleik, 41-36. Þá tóku Skallagrímskonur góða rispu og endurheimtu ellefu stiga forskot sitt með flautukörfu undir lok fyrri hálfleiks, 49-38.

Hafnfirðingar virkuðu staðráðnir í að vinna sig aftur inn í leikinn eftir hléið. Um miðjan þriðja leikhluta hafði liðið minnkað muninn í þrjú stig, en nær komust þær ekki. Þær voru komnar í villuvandræði, þar sem þrír byrjunarliðsmenn voru komnir með fjórar villur í þriðja leikhlutanum. Dró nokkuð af Haukum undir lok leikhlutans og Skallagrímskonur nýttu sér það. Með snörpum kafla tókst þeim að auka forystuna í níu stig, 66-57, fyrir lokafjórðunginn. Það bil náðu Hafnfirðingar aldrei að brúa og Skallagrímskonur unnu glæsilegan sigur, 86-79, eftir að hafa haft yfirhöndina nánast frá fyrstu mínútu.

Keira Robinson átti risaleik fyrir Skallagrím og skoraði 44 stig, tók fimm fráköst og stal fjórum boltum. Emilie Hesseldal var sömuleiðis frábær á báðum endum vallarins. Hún skoraði 27 stig, tók tíu fráköst, gaf sex stoðsendingar og stal fimm boltum. Mathilde Colding-Poulsen skoraði sex stig og tók fimm fráköst, Maja Michalska skoraði sex stig einnig og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði þrjú stig og tók níu fráköst.

Þóra Kristín Jónsdóttir, fyrirliði Hauka, var atkvæðamest Hafnfirðinga með 22 stig og níu fráköst. Randi Brown skoraði 21 stig og gaf fimm stoðsendingar og Rósa Björk Pétursdóttir var með 13 stig og fimm fráköst.

Skallagrímur mætir KR í bikarúrsiltaleiknum á morgun, en KR-ingar sigruðu Val í hinum undanúrslitaleik gærdagsins. Bikarúrslitaleikurinn hefst kl. 16:30 í Laugardalshöllinni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Héldu tombólu fyrir RKÍ

Þær Esther Nanna Lýðsdóttir og Þóra Birna Jónsdóttir héldu nýverið tombólu til stuðnings Rauða krossinum. „Þessar duglegu stelpur söfnuðu 9.058... Lesa meira

Reykhóladagar að baki

Hinir árlegu Reykhóladagar voru haldnir hátíðlegir dagana 24.-26. júlí síðastliðna. Dagskráin í ár var nokkuð lágstemmdari en verið hefur undanfarin... Lesa meira