Ljósm. úr safni/ sá.

Tap á Selfossi

Snæfellingar riðu ekki feitum hesti frá viðureign sinni við Selfyssinga þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöld. Selfyssingar, sem léku á heimavelli, höfðu yfirhöndina allan tímann og sigruðu að lokum örugglega, 96-77.

Heimamenn voru öflugri í upphafi leiks og leiddu með tólf stigum eftir fyrsta leikhlutann, 90-18. Þeir juku forskot sitt í öðrum fjórðungi, komust mest 21 stigi yfir en Hólmarar náðu aðeins að laga stöðuna áður en hálfleiksflautan gall. Þá leiddu Selfyssingar með 18 stigum, 49-31.

Snæfellingar komu mjög ákveðnir til síðari hálfleiks. Þeir skoruðu fyrstu ellefu stigin og minnkuðu muninn í sjö stig, 49-42 þegar aðeins tvær mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta. En þetta var eina alvöru atlaga Hólmara að forystu heimamanna. Selfyssingar tóku stjórnina á nýjan leik og höfðu 16 stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 70-54. Með góðum leik framan af fjórða leikhluta, þar sem þeir komust mest 28 stigum yfir, gerðu þeir út um leikinn. Snæfellingar löguðu stöðuna aðeins undir lok leiks en sigur heimamanna var aldrei í hættu. Lokatölur urðu 96-77, heimamönnum í vil.

Aron Ingi Hinriksson var stigahæstur Snæfellinga með 23 stig, Brandon Cataldo skoraði 13 stig og tók níu fráköst, Benjamin Kil skoraði 13 stig einnig, Anders Gabriel Andersteg var með ellefu stig og ellefu fráköst, Benjamín Ómar Kristjánsson skoraði átta stig, Guðni Sumarliðason var með fjögur stig og fimm fráköst, Ísak Örn Baldursson skoraði þrjú stig og Eiríkur Már Sævarsson var með tvö.

Arnór Bjarki Eyþórsson var stigahæstur Selfyssinga með 27 stig en Christian Cunningham var að öðrum ólöstuðum besti maður vallarins. Hann skorði 25 stig, reif niður 23 fráköst og varði fimm skot. Maciek Klimaszewski skoraði 18 stig fyrir Selfoss en aðrir höfðu minna.

Snæfellingar hafa fjögur stig í næstneðsta sæti deildarinnar, jafn mörg og Sindri í sætinu fyrir ofan og Skallagrímur í sætinu fyrir neðan. Síðarnefnda liðið er einmitt næsti andstæðingur Hólmara. Snæfell og Skallagrímur mætast í Vesturlandsslag í Stykkishólmi mánudaginn 17. febrúar næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir