Borgnesingar misstu Breiðablik fram úr sér eftir góðan fyrri hálfleik. Ljósm. Skallagrímur.

Gestirnir sterkari í síðari hálfleik

Skallagrímsmenn máttu játa sig sigraða gegn toppliði Breiðabliks þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöld. Eftir jafnan leik framan af tóku Blikar að síga fram úr í síðari hálfleik og sigruðu að lokum með 14 stigum, 80-94.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafsfjórðungnum þar sem þau fylgdust að nær allan leikhlutann. Að honum loknum voru gestirnir stigi yfir, 20-21. Annar leikhluti var heldur kaflaskiptari en sá fyrsti. Eftir að hafa skipst á forystunni náðu gestirnir yfirhöndinni og leiddu leikinn. Borgnesingar voru þó aldrei langt undan og náðu að minnka muninn í eitt stig áður en flautað var til hálfleiks, 38-39.

Leikurinn virtist ætla að verða æsispennadi áfram eftir hléið. Staðan var jöfn , 44-44, snemma í síðari hálfleik þegar Blikar náðu undirtökunum. Þeim tókst með góðum kafla að slíta sig aðeins frá Borgnesingum og höfðu tíu stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 58-68. Þar héldu þeir Skallagrímsmönnum í skefjum, bættu lítið eitt við forskot sitt og sigruðu að lokum með 94 stigum gegn 80 stigum Borgnesinga.

Hjalti Ásberg Þorleifsson var stigahæstur í liði Skallagríms með 16 stig, en hann tók fimm fráköst að auki. Kenneth Simms skoraði 14 stig og tók ellefu fráköst, Davíð Guðmundsson var með tíu stig, Marinó Þór Pálmason var með átta stig og sex stoðsendingar, Bergþór Ægir Ríkharðsson átta stig og fimm fráköst, Isaiah Coddon og Kristján Örn Ómarsson skoruðu báðir átta stig, Kristófer Gíslason var með sex stig og Davíð Ásgeirsson skoraði tvö.

Larry Thomas skoraði 21 stig, tók níu fráköst og gaf átta stoðsendingar í liði Breiðabliks. Sveinbjörn Jóhannesson var með 21 stig einnig og ellefu fráköst, Árni Elmar Hrafnsson skoraði 16 stig og gaf sjö stoðsendingar, Sigurður Sölvi Sigurðsson var með 14 stig og Hilmar Pétursson skoraði tíu stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Borgnesingar sitja á botni deildarinnar með fjögur stig, jafn mörg og Snæfell og Sindri í sætunum fyrir ofan. Næsti leikur liðsins er Vesturlandsslagur gegn Snæfelli í Stykkishólmi. Sá leikur fer fram mánudaginn 17. febrúar næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir