Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Endurkomusigur Skallagríms

Skallagrímskonur unnu sterkan endurkomusigur á Breiðabliki, 75-73, þegar liðin mættust í Dominos‘ deild kvenna í Borgarnesi á laugardaginn.

Blikakonur voru öflugri í upphafsfjórðungnum. Þegar langt var liðið á hann leiddu þær 8-22, en Skallagrímskonur minnkuðu muninn í sjö stig áður en leikhlutinn var úti, 17-24. Þær voru sterkara liðið í öðrum leikhluta og færðust stöðugt nær gestunum. Þegar stutt var til hálfleiks komust þær yfir, en Blikar áttu lokaorðið í fyrri hálfleik og leiddu með einu stigi í hléinu, 36-37.

Skallagrímskonur voru lengi í gang í síðari hálfleik og það voru gestirnir sem réðu ferðinni í þriðja leikhluta. Breiðablik náði tólf stiga forskoti seint í leikhlutanum en Borgnesingar minnkuðu muninn í átta stig fyrir lokafjórðunginn, 52-60. Þar lögðu Skallagrímskonur allt í sölurnar. Þær komu sér fljótlega upp að hlið gestanna, komust síðan yfir og lokamínúturnar voru æsispennandi. Þegar mínúta lifði leiks jöfnuðu gestirnir metin í 73-73 með þriggja stiga skoti og fengu víti að auki. En Blikar brenndu af og Skallagrímskonur skoruðu úr tveimur vítaskotum í næstu sókn. Borgnesingar stálu síðan boltanum en brenndu af lokaskoti leiksins en það kom ekki að sök. Gestirnir náðu ekki að koma skoti af síðustu sekúndurnar og Skallagrímskonur fóru því með sigur af hólmi, 75-73.

Keira Robinson átti stórleik í liði Borgnesinga, skoraði 32 stig, tók ellefu fráköst og gaf sex stoðsendingar. Emilie Hesseldal skoraði 22 stig, tók 16 fráköst og stal fimm boltum. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var með átta stig, sjö fráköst og sex stoðsendingar, Maja Michalska skoraði sex stig, Mathilde Colding-Poulsen var með þrjú stig, Gunnhildur Lind Hansdóttir skoraði tvö og tók fimm fráköst og Árnína Lena Rúnarsdóttir skoraði tvö stig einnig.

Danni Williams var iðin við kolann í liði Blika, skoraði 26 stig og tók tólf fráköst. Fanney Lind homas skoraði 15 stig og tók níu fráköst en aðrar höfðu minna.

Eftir umferðina lyftu Skallagrímskonur sér upp í fjórða sæti deildarinnar. Þær hafa 24 stig, jaf mörg og Keflavík í sætinu fyrir neðan en tveimur stigum á eftir Haukum í sætinu fyrir ofan. Næsti leikur Borgnesinga í deildinni er útileikur gegn Íslandsmeisturum Vals miðvikudaginn 19. febrúar næstkomandi. Í millitíðinni leika Skallagrímskonur hins vegar í undanúrslitum bikarkeppninnar gegn Haukum í Laugardalshöllinni fimmtudaginn 13. febrúar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Karfan byrjar í kvöld

Íslandsmótið í körfuknattleik hefst í kvöld, þegar keppni hefst í Domino’s deild kvenna. Upphafsleikur mótsins er viðureign  Fjölnis og Snæfells... Lesa meira