Ljósm úr safni/ sá.

Misstu dampinn í seinni hálfleik

Snæfellskonur biðu lægri hlut gegn Haukum þegar liðin mættust í Stykkishólmi í gærkvöldi. Eftir frekar spennandi fyrri hálfleik náðu gestirnir undirtökunum í þeim síðari og sigruðu að lokum örugglega, 62-84.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks en um miðjan fyrsta leikhlutann náðu Haukar yfirhöndinni. Snæfellskonum gekk illa að skora stig og voru tólf stigum undir eftir upphafsfjórðunginn, 12-24.

Snæfellskonur komu ákveðnar til annars leikhluta. Þær voru ekki lengi að jafna metin og komust síðan yfir eftir miðjan fjórðunginn, 31-28. En Haukar náðu forystunni að nýju og leiddu með tveimur stigum í hléinu, 39-41.

Það var síðan í síðari hálfleiknum sem gestirnir náðu undirtökunum í leiknum. Haukar sigu fram úr í þriðja leikhluta og tilraunir Snæfells til að spyrna við fótum báru lítinn árangur. Gestirnir voru 13 stigum yfir fyrir lokafjórðunginn, 54-67. Síðustu tíu mínútur leiksins bættu Haukar við forskot sitt og sigruðu að lokum með 22 stigum, 62-84.

Emese Vida var atkvæðamest í liði Snæfells með 17 stig og ellefu fráköst. Vera Pirttinen skoraði 15 stig, Amarah Coleman var með ellefu stig og níu fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir skoraði átta stig, Gunnhildur Gunnarsdóttir var með sex stig og Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði fimm.

Randi Brown átti stórleik fyrir Hauka, skoraði 31 stig og tók sex fráköst. Lovísa Björt Henningsdóttir skoraði 14 stig og tók fimm fráköst og Rósa Björk Pétursdóttir var með tólf stig.

Snæfell situr í sjötta sæti deildarinnar með tólf stig, tíu stigum á eftir Skallagrímum en með átta stiga forskot á Breiðablik. Næsti leikur Snæfells er gegn KR í Stykkishólmi á föstudaginn, 8. febrúar næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir