Ljósm. úr safni/ sá.

Snæfellingar töpuðu stórt

Snæfellingar riðu ekki feitum hesti frá viðureign sinni gegn sterku liði Breiðabliks þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöld. Leikið var í Stykkishólmi. Eftir jafnan upphafsfjórðung tóku gestirnir að síga fram úr og unnu að lokum stórsigur, 73-111.

Fyrsti leikhluti var sem fyrr segir mjög jafn. Liðin fylgdust að lengst framan af og mestu munaði fjórum stigum, í stöðunni 24-20 fyrir Snæfelli. Allt þar til á lokamínútum leikhlutans þegar gestirnir skoruðu ellefu stig í röð og leiddu með sjö stigum að upphafsfjórðungnum loknum, 24-31. Munurinn hélst meira og minna óbreyttur framan af öðrum leikhluta. En þegar fór að líða nær hálfleiknum tóku Blikar að síga lengra og lengra fram úr. Þegar hálfleiksflautan gall voru þeir komnir með 20 stiga forystu, 40-60 og róður Snæfellinga heldur betur tekinn að þyngjast.

Breiðablik hafði góð tök á leiknum í síðari hálfleik og Snæfellingum tókst ekki að laga stöðuna. Þvert á móti juku Blikar forskotið hægt en örugglega í þriðja leikhluta og leiddu 58-89 að honum loknum. Það sama var uppi á teningnum í lokafjórðungnum og leiknum lauk með stórsigri Blika, 73-111.

Anders Gabriel Andersteg var atkvæðamestur í liði Snæfells með 27 stig, níu fráköst og sjö stoðsendingar. Brandon Cataldo skoraði 16 stig og tók ellefu fráköst, Guðni Sumarliðason var með níu stig og fimm fráköst, Benjamin Kil skoraði sjö stig, Aron Ingi Hinriksson var með sex stig, Ellert Þór Hermundarson þrjú, Valdimar Hannes Lárusson og Benjamín Ómar Kristjánsson skoruðu tvö stig hvor og Ísak Örn Baldursson skoraði eitt stig.

Snorri Vignisson var stigahæstur Blika með 32 stig og fimm fráköst að auki. Larry Thomas skoraði 15 stig og tók átta fráköst, Sveinbjörn Jóhannesson skoraði tólf stig og tók sex fráköst, Dovydas Strasunskas skoraði tólf stig einnig og þeir Steinar Snær Guðmundsson og Bjarni Geir Gunnarsson skoruðu tíu stig.

Snæfellingar hafa fjögur stig í sjöunda sæti deildarinnar, jafn mörg og Skallagrímur í sætinu fyrir neðan en sex stigum minna en Selfoss í sætinu fyrir ofan. Næsti leikur Snæfells er heimaleikur gegn Vestra mánudaginn 3. febrúar næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir