Kristján Örn Ómarsson á hér greiða leið að körfunni í leiknum gegn Hetti. Ljósm. Skallagrímur.

Gestirnir sterkari í síðari hálfleik

Skallagrímsmenn máttu játa sig sigraða gegn sterku liði Hattar, þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöld. Eftir jafnan og spennandi fyrri hálfleik tóku gestirnir stjórnina í þeim síðari og sigruðu að lokum örugglega, 64-88.

Borgnesingar byrjuðu leikinn betur og leiddu 10-3 eftir fjögurra míntúna leik. Þá tóku gestirnir við sér, jöfnuðu metin og náðu forystunni áður en upphafsfjórðungurinn var úti, 16-17. Leikurinn var í járnum framan af öðrum fjórðungi. Hverri körfu var svarað og liðin skiptust á að leiða leikinn. Undir lok síðari hálfleiks náði Höttur að komast yfir og halda forystunni og fór með fjögurra stiga forskot inn í hléið, 33-37.

Gestirnir frá Egilsstöðum byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti. Með góðum leikkafla tókst þeim að auka forskot sitt í 14 stig þegar þriðji leikhluti var rúmlega hálfnaður. Borgnesingar tóku þá smá rispu og minnkuðu muninn í sex stig, en Höttur átti lokaorði í leikhlutanum og fór með 16 stiga forskot inn í lokafjórðunginn, 50-66. Þar héldu þeir áfram að bæta við forskotið jafnt og þétt og sigruðu að lokum með 24 stigum, 64-88.

Kenneth Simms var atkvæðamestur í liði Skallagríms og var hársbreidd frá því að setja upp þrennu. Hann skoraði 17 stig, reif niður 18 fráköst og gaf níu stoðsendingar. Kristófer Gíslason, Davíð Guðmundsson og Kristján Örn Ómarsson skoruðu níu stig hver, Hjalti Ásberg Þorleifsson var með sex stig, Almar Örn Björnsson og Arnar Smári Bjarnason skoruðu fimm stig og Isaiah Coddon og Marinó Þór Pálmason skoruðu tvö.

Marcus Jermaine Van var stigahæstur í liði Hattar með 24 stig og ellefu fráköst að auki. Dino Stipcic skoraði 18 stig, gaf sjö stoðsendingar og tók sex fráköst, Matej Karlovic var með 15 stig og Sigmar Hákonarson ellefu.

Skallagrímur hefur fjögur stig í áttunda sæti deildarinnar, jafn mörg og Snæfell í sætinu fyrir ofan en tveimur stigum meira en botnlið Sindra, sem er einmitt andstæðingur Borgnesinga í næstu umferð. Leikur Skallagríms og Sindra fer fram á Höfn í Hornafirði næstkomandi föstudag, 31. janúar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir