Magnús Ólafsson segir frá á Sögulofti Landnámssetursins sl. sunnudag. Ljósm. kgk.

Fræðandi, afslöppuð og skemmtileg frásögn

Magnús Ólafsson sagnamaður frumsýndi Öxina á sunnudag

 

Öxin var frumsýnd fyrir fullu húsi á Sögulofti Landnámsseturs Íslands síðastliðinn sunnudag. Þar segir Magnús Ólafsson sagnamaður frá síðustu aftökunni hér á landi, þegar Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson voru tekin af lífi fyrir morðin á Natani Ketilssyni og Pétri Jónssyni. Sýningin hófst kl. 14:00, sunnudaginn 12. janúar. Þá voru nákvæmlega 190 ár upp á klukkustund frá því að Agnes og Friðrik voru hálfshöggvin á Þrístöpum í Vatnsdal að viðstöddum 150 manns, sem Björn Blöndal sýslumaður hafði stefnt þangað af því tilefni.

Sagnamaðurinn Magnús var áður við búskap á Sveinsstöðum í Vatnsdal, eins og afi hans, langafi og langalangafi. Sonur hans býr nú á Sveinsstöðum. Fjölskylda Magnúsar tengist sögunni því árið 1934, 104 árum eftir aftökuna, voru afi hans og faðir fengnir til aðstoðar þegar bein Agnesar og Friðriks voru flutt í vígða mold. Segir Magnús m.a. frá mögnuðum atburðum sem þeim gjörningi tengjast, í tengslum við atburði sögunnar.

 

Sagnamaður af guðs náð

Magnús Ólafsson er sagnamaður af guðs náð, er einn þeirra sem heldur uppi heiðri hefðbundinnar íslenskrar frásagnarlistar. Hann hefur hljómþýða rödd sem þægilegt er að hlusta á og engum dylst sem á hann hlýðir að Magnús þekkir söguna um síðustu aftökun á Íslandi eins og handarbakið á sér, ef ekki betur.

Frásögn Magnúsar er ítarleg og skipulega fram sett. Frásagnarstíllinn er rólegur og yfirvegaður og stemningin á Söguloftinu var í senn afslöppuð og heimilisleg. Inn í frásögn sína skýtur Magnús ýmsum skemmtilegum atriðum, svo sem vísum og fleira stuttu skemmtiefni sem í ófá skipti kitlaði hláturtaugar gesta, en alltaf af virðingu fyrir persónum og leikendum sögunnar. Tilgangur frásagnarinnar er enda að fræða fólk og skemmta. Hvort tveggja gerir Magnús listavel og óhætt að mæla heilshugar með Öxinni fyrir alla áhugasama.

 

-Kristján Gauti Karlsson

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Bikarinn að byrja

Um helgina verður keppt í Mjólkurbikarnum í knattspyrnu. Bikarkeppni karla hefst í dag, föstudaginn 5. júní og munu tvö Vesturlandslið... Lesa meira