Emilie Hesseldal átti stórleik þegar Skallagrímskonur sigruðu Hauka. Ljósm. Skallagrímur.

Öruggur sigur Skallagríms

Skallagrímskonur lyftu sér upp í fjórða sæti Domino‘s deildar kvenna í körfuknattleik með góðum sigri á Haukum í Borgarnesi í gær. Borgnesingar höfðu yfirhöndina allan leikinn og unnu að lokum öruggan sigur, 73-59.

Skallagrímskonur voru mun sterkari í upphafsfjórðungnum og leiddu 19-9 að honum loknum. Þær héldu uppteknum hætti í öðrum leikhluta, voru komnar með 18 stiga forskot um hann miðjan en leiddu með 16 stigum þegar flautað var til hálfleiks, 43-27.

Áfram voru Skallagrímskonur betri eftir hléið og stjórnuðu gangi mála inni á vellinum. Þegar þriðji leikhluti var allur var staðan 61-41 og Borgnesingar komnir í ansi vænlega stöðu. Gestirnir úr Hafnarfirði náðu aðeins að bíta frá sér í lokafjórðungnum. Haukakonur höfðu minnkað muninn niður í tíu stig þegar þrjár mínútur lifðu leiks en það var of seint í rassinn gripið því nær komust þær ekki. Sigur Skallagrímskvenna var aldrei í neinni raunverulegri hættu og þær sigruðu að endingu með 14 stigum, 73-59.

Emilie Hesseldal átti stórleik fyrir Skallagrím á báðum endum vallarins, skoraði 27 stig, reif niður 17 fráköst og stal hvorki fleiri né færri en sjö boltum. Keira Robinson var með 19 stig, fimm fráköst og fimm stolna bolta, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði ellefu stig og tók 13 fráköst, Maja Michalska skoraði ellefu stig og Mathilde Colding-Poulsen skoraði fimm stig og gaf fimm stoðsendingar.

Randi Brown skoraði 31 stig fyrir Hauka og tók fimm fráköst, Lovísa Henningsdóttir skoraði tólf stig og tók sex fráköst en aðrar höfðu minna.

Sem fyrr segir sitja Skallagrímskonur í fjórða sæti deildarinnar eftir sigurinn gegn Haukum. Þær hafa 18 stig, jafn mörg og Haukar í sætinu fyrir neðan en tveimur stigum minna en Keflavík í sætinu fyrir ofan. Skallagrímskonur leika næst miðvikudaginn 15. janúar, þegar þær fá lið Grindvíkinga í heimsókn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir