Gunnhildur Gunnarsdóttir sækir hart að körfu Blika. Ljósm. sá.

Góður sigur Snæfells

Snæfell bar sigurorð af Breiðabliki í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gær, 67-61. Leikið var í Stykkishólmi og höfðu Snæfellskonur undirtökin allan leikinn.

Þær voru mun öflugri í upphafsfjórðungnum og leiddu með ellefu stigum að honum loknum, 21-10. Blikar minnkuðu muninn í þrjú stig í upphafi annars leikhluta, en þá tóku Snæfellskonur við sér að nýju. Þær héldu gestunum stigalausum næstu fimm mínúturnar, skoruðu vel á meðan og komust í 35-18. Breiðablik kom til baka undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 39-31 í hléinu.

Breiðablik minnkaði muninn í fjögur stig í upphafi síðari hálfleiks. Þá náðu Snæfellskonur smá rispu og tíu stiga forskoti, um miðjan þriðja leikhluta, en Blikar minnkuðu munin í þrjú stig fyrir lokafjórðunginn, 51-48.

Snæfellskonur voru öflugri framan af fjórða leikhluta, en náðu aldrei að slíta sig frá liði gestanna. Um miðjan leikhlutann munaði þremur stigum á liðunum, en undir lokin náði Snæfell að bæta örlítið við forystuna og sigraði að lokum með sex stigum, 67-61.

Gunnhildur Gunnarsdóttir fór fyrir liði Snæfells með frábærum leik á báðum endum vallarins. Hún skoraði 23 stig, tók níu fráköst, varði fimm skot, gaf fjórar stoðsendingar og stal fjórum boltum. Amarah Coleman, nýr leikstjórnandi Snæfells, kom henni næst með 18 stig og fimm fráköst. Vera Pirttinen var með sex stig og sjö fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir sex stig og fimm fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir var með sex stig, Emese Vida skoraði fjögur stig og tók níu fráköst og Rebekka Rán Karlsdóttir var með fjögur stig einnig.

Danni Williams átti stórleik í liði Breiðabliks, skoraði 34stig og tók tíu fráköst og Þórdís Jóna Kristjánsdóttir var með tíu stig og sjö fráköst en aðrar höfðu minna.

Með sigrinum tryggði Snæfell sér fjögurra stiga forskot á Breiðablik. Snæfellskonur hafa átta stig í sjötta sæti deildarinnar, en eru tíu stigum á eftir Haukum í sætinu fyrir ofan. Næsti leikur liðsins er gegn Keflavík á sunnudaginn, 12. janúar kl. 17:00. Sá leikur fer einnig fram í Stykkishólmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir